13 okt Dómur fallinn. Baráttan að byrja
Sagan kennir okkur að flestir stjórnmálamenn vilja vernda sérhagsmunahópa (atkvæði) og berjast gegn frelsi fyrir alla, til dæmis þegar lönd eru með verndartolla og innflutningshöft til þess að vernda innlenda framleiðslu gegn erlendri samkeppni. Kosturinn við samkeppnina er einmitt að hún hvetur fyrirtæki til þess að selja betri vörur og þjónustu en aðrir á sem hagstæðustu verði fyrir neytendur. Þegar stjórnmálamenn berjast gegn innflutningi á erlendum vörum birtast þeir oft sem sauðir í sauðargærum og flytja fagurgala um að þeir séu að vernda saklausan almenning fyrir hinum hræðilegu útlendingum.
Nú í vikunni féll dómur í máli ríkisins gegn Ferskum kjötvörum. Málsatvik eru í stuttu máli þau að íslenska ríkið var dæmt til að greiða fyrirtækinu bætur vegna þess að því var bannað að flytja inn ferskt hrátt kjöt. Þessi dómur er fagnaðarefni fyrir neytendur, en með honum er hafnað skorðum sem settar voru við innflutningi á hráu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og ógerilsneyddum eggjum, þegar að matvælalöggjöf ESB var innleidd árið 2009. Á þeim tíma var ríkisstjórn undir forystu Samfylkingarinnar. Málið er enn eitt dæmið um að Framsóknarmenn í öllum flokkum hafa komið í veg fyrir að íslenskur almenningur fengi að njóta sama matvöruverðs og nágrannar okkar.
Kannski var skiljanlegt að Íslendingar væru hræddir við útlendan mat þegar fáir höfðu farið út fyrir landsteinana, en slíkt tal verður hjákátlegt í munni sigldra manna sem hafa dvalist langdvölum í námi erlendis eða verið fastir skemmtikraftar á Klörubar á Spáni. Fyrrverandi forsætisráðherra miðlaði landslýð fyrir nokkrum árum af víðtækri þekkingu sinni á bogfrymli sem hann sagði menn velta fyrir sér hvort breytti „hegðun heilu þjóðanna. Þetta hljómar eins og vísindaskáldsaga. Þetta er mjög algengt … ekki hvað síst, Belgíu.“ Evrópureglugerðirnar eru einmitt upprunnar frá Brussel, höfuðborg Belgíu.
Í fréttatilkynningu frá Bændasamtökum Íslands segir að þau hafi „stutt stjórnvöld eftir megni í málsvörninni.“ Hér er hlutunum reyndar snúið við því að mótstaða stjórnvalda er einmitt stuðningur við Bændasamtökin. Í sömu frétt segir: „Bændasamtök Íslands munu ekki láta hér staðar numið og heita á alla málsmetandi að veita því liðsinni áfram.“
Inntak þeirrar baráttu verður að koma í veg fyrir að dómnum verði framfylgt. Og þar á ekki að beita neinum vettlingatökum. Einn vildarvinur Bændasamtakanna á Alþingi hefur þegar svarað kallinu og segir: „Ef það er svo að EES-samningurinn ógnar matvælaframleiðslu og fæðuöryggi þjóðarinnar ber okkur að skoða hvort það sé þess virði að halda í samninginn.“
Enginn gjörningur hefur bætt lífskjör almennings jafnmikið og inngangan í EES. Honum vilja „málsmetandi“ Framsóknarmenn fórna.
Höfundur er stofnandi Viðreisnar og fv. fjármálaráðherra. Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. október 2018.