Stóra tækifærið

Á komandi áratugum eru fyrir­sjáanlegar miklar breytingar í sam­göngum í lofti og á láði.
Stjórnvöld hafa fyrir þó nokkru síðan opinberað þá sýn sína að þau hyggist byggja nýjan flugvöll undir kennslu, æfinga- og einkaflug í nágrenni höfuð­borgarsvæðisins. Einn álitlegasti stað­ur­inn fyrir slíkan flugvöll er við Hvassa­hraun. Í kjölfarið hefur einnig einhver skoðun farið fram á því hvort endurskoða eigi kostnaðarsamar breytingar á Keflavíkurflugvelli eða að byggja upp nýjan alþjóðaflugvöll á Hvassahrauni.

Á sama tíma gerist það að skip verða sífellt stærri og engar hafnir á Íslandi eru tilbúnar til þess að þjónusta djúprist risaskip. Einn hagkvæmasti kostur stórskipahafnar fyrir Suðvesturhornið er að Óttarstöðum, handan Straums­víkur, steinsnar frá Hvassahrauni.
Besta leiðin til að spá fyrir um framtíðina er að skapa hana. Hafnar­fjörður er í dauðafæri til að verða mið­punktur alþjóðlegrar verslunar, við­skipta og flutninga fyrir landið allt með samtengdri alþjóðahöfn og flugvelli.

Svona risaverkefni gerast þó ekki að sjálfu sér. Ef þessi tækifæri eiga að raungerast, öllum landsmönnum til hagsbóta, þurfa bæjaryfirvöld að taka frumkvæði í málinu, hafa skýra afstöðu og róa að því öllum árum að gera aðstæður hér í bænum þannig að erfitt verði að horfa framhjá okkur þegar ákvarðanir verða teknar.

Það er í raun samkeppnishæfni alls landsins sem er undir þegar möguleikar eru á því að stytta ferðina frá flugstöð að miðborg um meira en helming. Höfuð­borgarsvæðið færi að líkjast borgum sem eru hvað fremstar í heimi í tengingum flugstöðvar til miðborga, eins og Kaupmannahöfn þar sem einung­is 15 mínútna ferð er frá Kastrup til Kongens Nytorv.
Flugvellir skapa um það bil 1.000 störf fyrir hverja milljón farþega í áætlanaflugi. Það sýnir glögglega hversu stórt tækifæri er um að ræða, allt eftir því hversu langt fram í tímann er horft. Atvinnutengd tækifæri eru fjölda­mörg: bílaleigur, ferðaþjónusta, vöruflutningar, vinnsla á ferskum fiski í flug og margt fleira má telja til.

Ákvarðanir dagsins í dag móta samkeppnishæfni Hafnarfjarðar í framtíðinni. Ráð er ekki nema í tíma sé tekið. Við í Viðreisn teljum skynsamlegt fyrsta skref að fá úttekt á efnahagslegum áhrifum flugvallar fyrir bæjarfélagið, nánar tiltekið hver áhrifin gætu verið á útsvarstekjur bæjarins og lóðatekjum.

Eitt af hlutverkum bæjarstjórnar er að hugsa langt inn í framtíðina, greina tækifæri og gera sveitarfélagið eins vel í stakk búið og hægt er til að grípa gæsina þegar hún gefst. Það er auð­veldara að verða heppinn ef maður undir­býr sig. Af þeirri ástæða kallar Viðreisn í bæjarstjórn eftir betri upp­lýsingum þannig að bæjarbúar, em­­bættismenn og kjörnir fulltrúar geti betur myndað sér skoðun á þessu mögu­lega stærsta hagsmunamáli Hafnarfjarðar á næstu 20 árum.

Framtíðin hefst í dag.

Jón Ingi Hákonarson, oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar
Óli Örn Eiríksson, varaáheyrnarfulltrúi Viðreisnar í skipulags- og byggingaráði.

Greinin birtist fyrst í Fjarðarfréttum 19. júní 2019