30 jan Glöggt er gests augað
Ég spyr oft útlendinga á ferð um landið hvernig þeim líkar dvölin og hvernig landið okkar kemur þeim fyrir sjónir. Algengasta hrósið er um hreina loftið, góða vatnið, þögnina sem ríkir í óbyggðum og víðernið. Helsta umkvörtunarefnið er verðlagið og lausaganga búfjár og bíla!
Spænsk hjón sem ég hitti í Reynisfjöru sögðu mér að við Íslendingar gerðum okkur enga grein fyrir því hvað náttúra landsins væri algjörlega einstök. Þýskur ferðamaður sagði mér að hann hefði í fyrsta sinn á ævinni drukkið vatn úr læk þegar hann var hér í fríi. Frönsk hjón á húsbíl í Skaftafelli sögðu mér að landið okkar væri eitt samfellt ævintýraland.
Fjölskylda frá Seattle sagði mér að Hornstrandir væru fallegasta svæði sem þau hefðu ferðast um. Dani sagði mér eitt sinn að helsti ósiður okkar væri að hafa bíla í gangi meðan skroppið væri í verslanir og kindur að hlaupa í veg fyrir bílinn hans.
Breti, búsettur á Íslandi sem ég ræddi við meðan við dældum bensíni á bílana okkar kvartaði sáran undan verðlagi á matvöru og víni hér og háum sköttum.
Það er ljóst að orsakanna er að leita meðal annars í verndartollum á matvælum, háum vöxtum og ofursköttum á víni og bjór. En er skýringin hve dýrt landið okkar er í opinberum rekstri?
Á Íslandi búa um 340 þúsund manns. Í Tempelhof-Schöneberg hverfinu í Berlín sem ég bjó í á námsárum mínum búa í dag 335 þúsund manns. Hverfinu er stjórnað af 55 manna hverfisstjórn.
Við erum með 72 sveitarfélög, um 175 ríkisstofnanir, um 20 sendiráð, um 650 nefndir og ráð á vegum ríkisins. Er hugsanlegt að þarna liggi tækifæri til hagræðingar og lækkunar á sköttum okkar? Ég bara spyr.