16 jan Hótun heilbrigðisráðherra
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði nýlega á fundi læknaráðs Landspítalans að það væri mikil áskorun fyrir hana að standa með spítalanum þegar ályktanir um slæma stöðu stofnunarinnar kæmu út á færibandi.
Þetta er fordæmalaust tal ráðherra til starfsmanna opinberrar stofnunar. Það sem ráðherra er að segja er skýrt: Tali starfsmenn Landspítala um ástand mála innan veggja hans er ekki sjálfgefið að hún hafi áhuga á að vinna að lausnum á vanda stofnunarinnar.
Allir skilja hvað þetta þýðir í raun og veru. Álykti starfsfólk eða segi frá á annan veg en ráðherra þóknast kemur það niður á fjárveitingum til spítalans. Grímulausari getur hótunin vart verið.
Þessu má ekki jafna til pólitískra skylminga á Alþingi. Ráðherra er ekki að tala við þá sem hafa sama umboð og hún frá fólkinu í landinu. Ráðherravaldi er beitt gagnvart undirmönnum til þess að koma í veg fyrir óþægilega umræðu. Óhjákvæmilega munu þessi ummæli því hafa áhrif.
Landsmenn munu hér eftir hafa réttmæta ástæðu til að spyrja hvort frásagnir starfsfólks lýsi raunverulegum aðstæðum á Landspítalanum eða bara því sem ráðherra vill að heyrist. Gagnvart almenningi er verið að grafa undan trausti á gagnsæi í umræðu um opinber málefni. Um einhver viðamestu og mikilvægustu verkefni stjórnvalda.
Hin hlið þessa máls er ekki síður alvarleg. Þegar alþingismenn, handhafar fjárveitingavaldsins, kalla eftir upplýsingum frá starfsmönnum opinberra stofnana eiga þeir að geta treyst því að þær séu fullnægjandi. En ekki aðeins upplýsingar sem ráðherra eru þóknanlegar.
Þegar málið er skoðað í þessu ljósi eru ummæli heilbrigðisráðherra ekki bara til marks um hvernig hún hugsar á valdastóli. Þau eru ekki bara óvirðing við starfsfólk Landspítalans. Þau eru ekki bara hótun um að skjólstæðingar spítalans skuli gjalda fyrir það ef starfsfólkið talar ekki eftir forskrift ráðherrans. Hótun ráðherra grefur ekki síst undan virku lýðræði á löggjafarsamkomunni, þar sem réttar og nákvæmar upplýsingar eru forsenda skynsamlegra umræðna og lýðræðislegra ákvarðana.