13 feb Framleiðsla búvöru og hjúkrun aldraðra
Gildismat er mikilvægt við pólitískar ákvarðanir. Það er til að mynda forsenda fyrir því að unnt sé að forgangsraða verkefnum, sem er eitt mikilvægasta hlutverk stjórnmálamanna.
Heilbrigðisráðherra skrifaði fyrir nokkrum vikum undir þjónustusamninga um rekstur hjúkrunarheimila. Til þess að skoða gildismatið, sem að baki býr, þarf samanburð. Í þeim tilgangi er fróðlegt að skoða búvörusamningana. Í báðum tilvikum greiðir ríkið sinn hlut á móti beinum greiðslum neytenda landbúnaðarafurðanna og notenda hjúkrunarþjónustunnar.
Svo vill til að þeir þrír flokkar, sem sitja í núverandi ríkisstjórn, stóðu einnig að og studdu gerð búvörusamninga. Samanburðurinn er því líka pólitískt hliðstæður.
Samningstími er mælikvarði á gildismat
Samningstími er lykilatriði í rekstri þeirra sem stunda framleiðslu búvöru. Sama er að segja um þá sem annast rekstur hjúkrunarheimila. En hér kemur til sögunnar mismunandi og afar áhugavert gildismat.
Flokkarnir þrír, sem að þessum samningum hafa staðið, telja fráleitt að takmarka rekstraröryggi við framleiðslu búvara við skemmri tíma en tíu ár. Flestir telja það sanngjarnt.
Þegar kemur að samningum um framlög til hjúkrunarheimila telur heilbrigðisráðherra aftur á móti fráleitt að tryggja rekstur þeirra með samningum til lengri tíma en tveggja ára.
Búvörusamningarnir þykja almennt ekki lýsa of háu gildismati á starfi bænda. Samt er það fimm sinnum hærra en á samningunum um rekstur hjúkrunarheimila samkvæmt þessum mælikvarða.
Verðtrygging lýsir mismunandi gildismati
Stjórnarflokkarnir þrír eru allir sammála um að nauðsyn beri til að verðtryggja framlag ríkisins í búvörusamningum. Allt annað sé ósanngjarnt gagnvart bændum og neytendum. Fyrir því má færa ýmis rök.
Við gerð samninga um rekstur hjúkrunarheimila telur heilbrigðisráðherra hins vegar að það stríði gegn meginreglum um ábyrga fjármálastjórn að verðtryggja framlög ríkisins og hefur í því efni óblandinn stuðning þingmanna stjórnarflokkanna. Framsókn er til að mynda í prinsippinu á móti allri verðtryggingu en telur hana lífsnauðsynlega í búvörusamningum.
Einnig á þennan mælikvarða sker munurinn á gildismati í augu.
Sátt og hótanir lýsa mismunandi gildismati
Það hefur komið fyrir við gerð búvörusamninga og endurskoðun þeirra að óánægja hefur komið upp á meðal bænda. Þá hefur ríkið sest aftur að samningaborði. Það hefur aldrei skilið við samninga án þess að bændur væru almennt vel sáttir eða að minnsta kosti sæmilega sáttir.
Almenn og djúp óánægja ríkir hins vegar með síðustu samninga heilbrigðisráðherra um rekstur hjúkrunarheimila hjá Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samtökum íslenskra sveitarfélaga. Yfirlýsing samninganefndar þessara aðila verður ekki skilin á annan veg en að skrifað hafi verið undir samninga um skert framlög vegna hótunar um að ella yrði skerðingin aukin enn frekar með því að greiða ekki aukafjárveitingu, sem Alþingi ákvað.
Hótunin um að greiða ekki aukafjárveitinguna virðist ekki eiga stoð í ákvörðun Alþingis um hana. Það gæti verið tilefni athugunar á meðferð ráðherravalds.
En aðalatriðið er að fyrirfram ákveðnar skerðingar og hótanir um að virða ekki ákvarðanir Alþingis er enn ein birtingarmyndin um mismunandi gildismat á samningum um búvöruframleiðslu og hjúkrun aldraðra.
Leysir ekki fráflæðisvandann
Í viðtali við Morgunblaðið 23. janúar sagði framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu að Sjúkratryggingar hefðu í upphafi viðræðna sagt að fyrir lægi að það yrði niðurskurður á þessu ári, sem semja yrði um.
Þessi orð eru vísbending um að heilbrigðisráðherra sé ekki að leysa það sem kallað hefur verið fráflæðisvandi Landspítalans á þessu kjörtímabili með því að auka og bæta hjúkrun aldraðra. Fréttir berast jafnvel af því að hjúkrunarheimilin séu farin að senda skjólstæðinga sína til baka inn á Landspítalann og fleiri sveitarfélög vilji skila rekstrinum til ríkisins.
Engu er því líkara en eitthvað hafi verið missagt í þessum efnum. Það er líka dæmi um gildismat.