04 feb Glataðar hugsjónir
Bretar gengu úr Evrópusambandinu á dögunum. Sumir hafa lýst útgöngunni sem frelsun Bretlands. Útganga sett í búning sjálfstæðisbaráttu og þjóðernishyggju. Loks ráði Bretar eigin örlögum. „Take back control“ hét það hjá Brexit-sinnum. Talað er um tækifæri Breta til nýrra og betri viðskiptasamninga. Bretland standi sterkar eitt og óháð, frjálst til að nýta mátt sinn og megin, óháð hagsmunum annarra þjóða. En er það virkilega svo að smætta megi Evrópusambandsaðild í plús og mínus dálka í excel-skjali?
Það sorglega er nefnilega að horfa upp á Breta snúa baki við þeim hugsjónum sem búa á bak við Evrópusamvinnuna. Hugsjónina um frið á okkar tímum, um frelsi, mannréttindi, mannúð, jöfnuð, lýðræði og samvinnu þjóða. Samvinnu þar sem hagsmunir einstakra ríkja eru ekki ráðandi, heldur sú fallega hugsjón að saman getum við skapað betri heim.
Evrópusambandið hefur vissulega skilað okkur miklum efnahagslegum ávinningi. Sameiginlegur innri markaður án tolla og viðskiptahindrana hefur skilað íbúum álfunnar bættum lífsgæðum og lægra vöruverði. Nýjasta dæmið er afnám reikigjalda símafyrirtækja innan vébanda sambandsins en það er aðeins dropi í haf þeirra umbóta sem ESB hefur fært okkur. Það er hins vegar heldur fátæklegt að meta árangur Evrópusamvinnunnar á grundvelli fríverslunar einnar.
Evrópusamvinnan hefur tryggt lengsta samfellda friðartímabil í álfunni. Undir merkjum hennar hefur tekist að tryggja lýðræðislegt stjórnarfar í fjölmörgum ríkjum sem áður bjuggu við stjórnarfar einræðis, hvort heldur undir merkjum kommúnisma eða fasisma. Lönd á borð við Írland, Grikkland, Spán, Pólland, Eistland, Lettland, Litháen, Tékkland, Slóveníu, Slóvakíu og fleiri, hafa hafist upp úr sárri fátækt með aðild sinni að Evrópusambandinu. Þessi lönd hafa öll notið ríkulega fjárhagslegs stuðnings, en ekki síður stuðnings í innleiðingu löggjafar sem fest hefur í sessi grundvallarþætti lýðræðislegs þjóðfélags.
Verkefni Evrópusambandsins er hvergi nærri lokið þó svo okkar kynslóð hafi ekki upplifað stórfelldan ófrið í álfunni. Hugsjónir ESB eiga ekkert minna erindi í dag. Við glímum við fordæmalausar áskoranir í loftslagsmálum sem ekki verða leystar nema með metnaðarfullu alþjóðlegu samstarfi. Hið sama má segja í innflytjendamálum. Aukið flæði flóttamanna vegna stríðsátaka og áhrifa af hlýnun jarðar kallar á alþjóðlegt samstarf. Þá má ekki gleyma vaxandi uppgangi fasisma og þjóðernisöfga. Sú válega þróun minnir okkur óþyrmilega á til hvers Evrópusambandið var stofnað.
Vegna þessa er sorglegt að horfa á bak Bretum úr Evrópusambandinu. Ég held þó að þegar fram í sækir muni Bretar ekki líta á útgönguna sem frelsun Bretlands. Að þeir Boris Johnson og Nigel Farage muni ekki skipa sér á bekk með frelsishetjum Breta á borð við Churchill eða Nelson. Ég held að sagan verði þeim ekki svo hagfelld.
Evrópusamvinnan snýst nefnilega ekki bara um viðskiptakjör eða sérhagsmuni einstakra þjóða. Um tolla á fisk, kjöt eða osta. Þvert á móti snýst Evrópusamvinnan um frelsi og frið, um mannréttindi, jöfnuð og betra líf. Að vera reiðubúin að leggja okkar af mörkum til að skapa betri heim. Slíkar hugsjónir rúmast aldrei í excel-skjalinu. Því á endanum snýst þetta ekki um okkar lengstu hagsmuni heldur um hvaða hugsjónir við stöndum fyrir.