Útideyfa

Þorsteinn Pálsson

Upplýsingar Ríkisútvarpsins um sérstakar athafnir Samherja í Namibíu höfðu djúp áhrif á þjóðina. Hvarvetna var kallað eftir aðgerðum til að endurheimta traust. Ríkisstjórnin skynjaði reiðiöldu og samþykkti að bragði áætlun um viðbrögð.

Önnur hlið þessa máls snýr að réttarvörslukerfinu og skattyfirvöldum. Hin hliðin er pólitísk. Framvinda þess hluta málsins er áhugaverð og endurspeglar mjög ólík viðhorf um viðbrögð.

Reynt að drepa málinu á dreif

Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar sýndi að hún viðurkenndi að Samherji hafði valdið pólitísku uppnámi. Hún féllst á að þjóðin væri með réttmætar spurningar á vörunum.

Viðbrögðin voru skjót, en innihald áætlunarinnar bar þó merki þess að stjórnarflokkarnir hygðust drepa málinu á dreif. Frumvarpið, sem ríkisstjórnin hefur nú birt í samráðsgáttinni, staðfestir þennan grun.

Verkefnið í þessum áfanga var að taka á þeim vanda, sem hlaust af því að markmið laga um takmörkun á hámarks heildaraflahlutdeild einstakra fyrirtækja og tengdra fyrirtækja höfðu verið sniðgengin. Niðurstaðan er hálfgerð útideyfa. Höfundar frumvarpsins geta ekki einu sinni staðhæft að það taki á því tilefni, sem almenningur hefur haft fyrir augum.

Ástæðan er hugsanlega sú að ríkisstjórnarflokkarnir líta ekki svo á að gengið hafi verið á svig við markmið laganna.

Málsvörn á brauðfótum

Þegar Samherjaskjölin voru birt bentu margir á að eðlilegt væri að bera saman heildargreiðslur fyrirtækisins fyrir veiðirétt í Namibíu og hér heima. Það er meðal annars áhugavert þar sem veiðirétturinn er tímabundinn í Namibíu en ótímabundinn hér. Sjávarútvegsráðherra hafnaði öllum hugmyndum af þessu tagi strax í upphafi.

Nú hafa þingmenn Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata óskað eftir skýrslu frá ráðherra um þennan samanburð. Þjóðin er eigandi auðlindarinnar. Af sjálfu leiðir að ærið tilefni er til að vinna talnaefni eins og þetta upp úr fyrirliggjandi gögnum og birta.

Erfitt er að líta á slíka beiðni öðruvísi en sem framlag til málefnalegrar og upplýstrar umræðu. En í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur heitir slík upplýsing lýðskrum. Það er málsvörn á brauðfótum.

Róttækar hugmyndir um breytingar

Á vinstri væng stjórnmálanna hafa Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra VG, og Gunnar Smári Egilsson, leiðtogi Sósíalistaflokksins, sameiginlega hafið skipulega baráttu fyrir því að færa útgerðarhætti og byggðamynstur aftur í það horf, sem var fyrir innleiðingu aflahlutdeildarkerfisins á síðustu öld.

Á hægri vængnum hefur Karen Elísabet Halldórsdóttir, varaþingmaður formanns Sjálfstæðisflokksins og bæjarfulltrúi í stærsta bæjarfélaginu sem flokkurinn stýrir, blandað sér í umræðuna um róttækar breytingar með grein í Morgunblaðinu 24. janúar. Þar staðhæfir hún að hinn almenni sjálfstæðismaður vilji sjá „skref í þá átt að fjölga tækifærum nýrra og smærri útgerða með endurskoðun á kerfinu“.

Þetta sýnir að veruleg gerjun er í umræðunni til hægri og vinstri, þar á meðal innan Sjálfstæðisflokksins.

Hófsamar og markvissar tillögur

Á miðjunni hafa allir þingmenn Viðreisnar ásamt þingmönnum úr röðum Samfylkingar og Pírata lagt fram frumvarp, sem skerpir reglur um hámarksaflahlutdeild og á að útiloka að þær verði sniðgengnar, tryggir betra gegnsæi í fjárhagsupplýsingum stærri sjávarútvegsfyrirtækja og mælir á ný fyrir um dreifða eignaraðild í þeim allra stærstu.

Sniðganga um markmið laga um hámarksaflahlutdeild var til þess fallin að grafa undan trausti á fiskveiðistjórnarkerfinu. Þegar lagareglur um dreifða eignaraðild voru felldar úr gildi á sínum tíma var það ljóslega ekki gert í þeim tilgangi að efla traust.

Tillögur flokkanna þriggja eru markvissar en hófsamar og til þess fallnar að endurheimta traust um ákveðna þætti, sem máli skipta.

Engin rök standa til þess að kollvarpa kerfi, sem skilað hefur jafn góðum árangri og raun ber vitni, og valda með því óvissu hjá fyrirtækjunum og fólkinu, sem á allt sitt undir öflugum sjávarútvegi.

Hitt er mikill ábyrgðarhluti að láta viðbrögðin lenda í útideyfu. Það er að gefa þjóðinni langt nef. Tilfinningin er enn sú að þar sé málið statt.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. febrúar 2020