24 feb Veit ríkið hvaða öld er núna?
Hagkerfið hefur kólnað og fá batamerki er að sjá. Atvinnuleysi er óvenju mikið, hagnaður fyrirtækja dregst saman, loðnan lætur ekki sjá sig, Kínverjarnir halda sig heima og aðrir munu draga úr ferðalögum. Rio Tinto segist vera að skoða það að loka álverinu. Á sama tíma er verkfall sem gæti orðið býsna langt með kröfum sem helst minna á samningsmarkmið á verðbólguáratugnum. Niðurstaðan verður trauðla góð fyrir samfélagið. Ef Reykjavíkurborg kaupir sér frið er það ávísun á nýja upplausn á vinnumarkaði þar sem kröfur munu ganga á víxl og öllum finnst þeir hafa orðið útundan.Í fyrra lagði ríkisstjórnin mikla áherslu á það hve myndarlega hún hefði komið að samningaborðinu. Niðurstaðan var sú að enginn afgangur er af ríkisfjármálum og skattkerfið er orðið flóknara en áður. Ekki er sýnilegt samband milli ríkisstjórnar og verkalýðshreyfingar.
Enn heyrist frá ríkinu og hugmyndin er að stórauka útgjöld ríkisins til þess að koma hagkerfinu í gang aftur. Titringur er kominn upp innan ríkisstjórnarflokkanna um hver komi fyrstur með útgjaldaaukningu og gangi lengst í eyðslu. Sumar tillögurnar virðast vera undir sterkari áhrifum af því að kosningar til Alþingis verða á næsta ári en að þær séu nauðsynlegar og arðbærar fjárfestingar til lengri tíma litið.
Fyrir tæplega 100 árum beittu margar þjóðir verklegum framkvæmdum til þess að vinna sig út úr kreppu. Þetta var líka gert þegar efnahagsáföll dundu yfir Ísland á sjöunda áratug síðustu aldar. Líklega er það þess vegna sem nær allar tillögurnar ganga út verklegar framkvæmdir af ýmsu tagi. Slíkar fjárfestingar sköpuðu mörg störf þegar hundruð verkamanna þurfti að kalla til með haka og skóflur, en núna er öldin önnur. Vegavinna og gangagerð er unnin af stórvirkum vinnuvélum. Húsbyggingar eru mannfrekari, en er nauðsynlegt að byggja hótel og íbúðir í stórum stíl einmitt núna?
Stjórnmálamönnum verður tíðrætt um fjórðu iðnbyltinguna í ræðu og riti og hyggjast með því tali sýna að þeir fylgist svo sannarlega með tímanum. Því miður virðast margir þeirra hafa misst af hinum iðnbyltingunum þremur þegar þeir halda að aðferðir 20. aldarinnar eigi vel við á þeirri 21. Við eigum ekki að vanrækja innviði, en innviðir eru miklu meira en vegir, hús og möstur. Hugvit hefur tekið við af handafli, öllum til hagsbóta.
Uppbygging til framtíðar byggist ekki á því að búa til störf heldur að skapa verðmæti. Það verður best gert með því að fjárfesta í hugviti. Ríkið getur sparað til framtíðar með því að smíða ný forrit fyrir sjúkrahús, skólakerfið, samskipti almennings við ríkið og svo mætti lengi telja. Nýsköpun á þessum sviðum og fjölmörgum öðrum er nauðsynleg til þess að efla samkeppnishæfni þjóðarinnar og skapa betra líf til framtíðar.
Höfundur er stærðfræðingur og stofnandi Viðreisnar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. febrúar 2020