06 mar Kosningabaráttan um þann versta
Demókratar í Bandaríkjunum hafa nálgast valið á forsetaframbjóðanda 2020 af ákveðnum heiðarleika. Allir hafa frambjóðendurnir sagt að það sem mestu máli skipti í þetta sinn sé einfaldlega hver sé líklegastur til að vinna Trump. Allir komast frambjóðendurnir svo að vísu að því að einmitt þeir séu svarið. Í kappræðum er þetta heiðarlega stef mun sterkara en pólitík og kosningaloforð frambjóðenda. Þessar kosningar snúast í hugum Demókrata fyrst og fremst um hvað þeir vilja ekki. Þeir vilja ekki Trump og þeirra frambjóðandi verður sá sem líklegastur er talinn til að vinna hann. Val Demókrata stendur á milli Joe Biden og Bernie Sanders. Biden virðist núna verða ofan á vegna þess að þeim fer fjölgandi sem telja hann líklegri til að vinna Trump. Sanders þykir of róttækur sem er kannski dálítið kómískt fyrir okkur. Velferðarpólitíkin sem Sanders boðar er sennilega ósköp hefðbundin miðjupólitík á okkar mælikvarða.
Bandaríkjamenn eru ólíkir okkur að því leyti að það truflar þá ekki sérstaklega að lifa í gríðarlega stéttskiptu samfélagi. Margir þeirra trúa því að þannig eigi það að vera og það eina sem þurfi til að spjara sig í lífinu sé dugnaður og vinna. Vandamálið er hins vegar að tækifærin eru ekki jöfn. Það er ójafnt gefið frá byrjun. Dugnaðurinn kemur þess vegna fátæka barninu í Bandaríkjunum sjaldnast mjög langt. Amerískar bíómyndir segja oft sögu afreksmanneskjunnar sem braust áfram þrátt fyrir ekkert bakland og engan stuðning og tókst hið ótrúlega bara með því að vinna fjögur störf og samhliða því að stofna fyrirtæki. Í lok myndarinnar er söguhetjan svo orðin góðhjartaður milljarðamæringur og byrjuð með æskuástinni sem loksins sá hvað í söguhetjuna var spunnið. Þessar sögur verða hins vegar að bíómyndum einmitt vegna þess að þær eru svo ævintýralega sjaldgæfar.
Á Norðurlöndunum brosum við að barnaskap Bandaríkjamanna. Við tölum meira að segja stundum eins og við búum í stéttlausu samfélagi á Íslandi. Það er auðvitað lygi en við viljum ekki samfélag þar sem börn fæðast í fátækt og komast ekki þaðan. Mörg okkar trúa að hér sé veruleikinn sá að börn fæðist inn í samfélag þar sem leikreglurnar segja til um jöfn tækifæri. Þess vegna var Kveikur í vikunni svo óþægilegur því hann sýndi svart á hvítu það sem við flest kannski vitum en þurfum ekki endilega að sjá. Hin stóra millistétt sem heldur að hún þekki alls konar fólk þurfti að horfast í augu við að svo er ekki endilega.
Þrátt fyrir að fólk hafi það almennt gott er engu að síður hópur sem lifir í fátækt, sumir meira að segja við sárafátækt. Sá hópur er um 7.000-10.000 manns. Sem sagt í þúsundum talinn. Stærstur hluti þeirra eru einstæðir foreldrar, fólk sem glímir við lélega heilsu og innflytjendur. Sú staða að einstæðir foreldrar séu stór hluti þessa hóps segir okkur auðvitað um leið að mörg börn búa við fátækt. Börn sem alast upp í fátækt njóta ekki sömu tækifæra og önnur börn á Íslandi eins og þátturinn sýndi okkur. Greiningar benda til að staða á húsnæðismarkaði og heilsa séu lykilþættir sem spá fyrir um hvort fólk býr við sárafátækt. Húsnæðisstuðningur gagnast foreldrum sem og börnum þeirra sem búa við fátækt. Heimilið og skólinn eru veruleiki ungra barna og kostnaður foreldra við skólagöngu og frístundir hefur því auðvitað áhrif á þau börn sem veikast standa.
Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum munu líklegast snúast um það hvort bandarískur almenningur hræðist meira: ríkisvaldið eða ójafnréttið. Óttinn við ríkið er mikill í bandarískri menningu sem gerir að verkum að í pólitík Sanders felst áhætta fyrir Demókrata. Hann boðar nefnilega ákveðna velferð sem ekki er hefð fyrir þar, eins og heilbrigðisþjónustu, húsnæðisstuðning og stuðning við foreldra barna. Biden er auðvitað líka andlit velferðar í samanburði við Trump en hann er hins vegar ekki andlit ríkisvaldsins eins og Sanders. Biden er að því leytinu til öruggari kostur fyrir Demókrata í landi þar sem hræðslan við ríkisvald og velferðarpólitík er meiri en óttinn við ójafnrétti.
Umfjöllunin um aðstæður fátækra barna á Íslandi rammaði inn ákveðinn veruleika sem margir þurfa ekki að sjá. Samanburður milli Íslands og annarra landa er okkur blessunarlega hagstæður hvað varðar fátækt barna og Ísland er gott land að búa í fyrir flesta. En við viljum að öll börn njóti æskunnar og jafnra tækifæra. Við viljum ekki útilokun barna frá þátttöku í samfélaginu vegna fátæktar. Viljum norræna módelið en ekki það bandaríska. Og við viljum áfram geta staðið í lappirnar þegar við brosum að barnaskapnum í bandarískri pólitík sem hræðist stuðning og öryggisnet fyrir þá sem þurfa á því að halda. Við hræðumst fátækt barna en ekki það að stjórnvöld sinni hlutverki sínu.