20 mar Við höldum bara áfram
Fáir frasar eru veiklulegri að innihaldi en sá sem segir að það sem ekki drepur mann herðir mann. Það á ekki við um þá sem upplifa sorg, það þarf ekki að eiga við um fólk sem veikist af alvarlegum sjúkdómum og ekki heldur um efnahagsleg áföll í lífi fólks. Fólk sem upplifir áföll stendur auðvitað ekki sjálfkrafa sterkara á eftir. Samfélög sem ganga í gegnum hremmingar standa ekki heldur alltaf sterkari á eftir, öðru nær. Samfélög standa ekki alltaf sterkari eftir sjúkdóma, kreppu eða átök.
Á fyrstu metrunum
Í þeim heimsfaraldri sem nú ríður yfir er dálítið áhugavert að fylgjast með því hvernig við tölum hvert við annað.
Á upphafsmetrunum höfum við upplifað samstöðu, samkennd og samstarf en á sama tíma að fólki eru lagðar reglur um hvernig því á að líða. Við eigum að muna að halda ró okkar og við eigum meira að segja að muna að vera til (hvernig maður gleymir tilvist sinni er önnur saga). Og muna að vera glöð. Þegar óvissan nagar róa þessi orð ekkert sérstaklega. Huggunarorðin undirstrika frekar að í aðstæðum okkar felst ógn. Þess vegna fannst mér látlaus skilaboð Gylfa Zoëga í Silfrinu um síðustu helgi svo kærkomin: „Þegar þessi pest er gengin yfir, þá höldum við bara áfram.“ Einföld setning sem viðurkennir að við erum að glíma við bráðsmitandi veiru sem herjar á okkur núna en minnir líka á að hún mun ganga yfir. Og eftir það ætlum við að halda áfram. Í orðunum felst viðurkenning á stöðunni sem er alvarleg, en þar er engin afneitun.
Veiran verður okkur erfið á margan hátt. Hún skaðar fyrirtækin og atvinnulífið, hún veikir heimilin og fólkið og önnur afleiðing er samfélagsleg. Afleiðingarnar eru líklegar til að framkalla reiði þó reiðin sjáist ekki fyrst um sinn. Þessi veira mun hafa áhrif á heilbrigði, efnahag og líðan þjóðar.
Þegar við verðum fyrir þungu áfalli eða erfiðri lífsreynslu er auðvitað líklegt að við stöndum veikari eftir. Þau sem eiga sterkt bakland og góðan stuðning og leggja í vinnu við að byggja sig upp verða reynslunni ríkari, öðlast stundum aðra sýn á lífið og standa í einhverjum tilvikum sterkari á eftir.
Sum lífsreynsla er nefnilega þannig að þrátt fyrir að maður vildi svo gjarnan hafa verið án hennar þá getur hún haft í för með sér einhverjar jákvæðar afleiðingar, til dæmis bara þá að þora að vera til staðar fyrir aðra sem upplifa áfall. Þá hefur erfið reynsla orðið til einhvers góðs.
Við höfum sem þjóð upplifað snjóflóð, eldgos og efnahagshrun og aðrar hremmingar. Við höfum upplifað samstöðu en við þekkjum líka útbreidda reiði í samfélaginu í kjölfar áfalls. Og við eigum öll reynslu af persónulegum áföllum, misjafnlega þungbærum. Sennilega erum við núna stödd í fyrsta þætti áfalls.
Við vonum öll það besta, hugurinn er allur við þetta verkefni og við erum staðráðin í að standa saman. Margir finna fyrir óvissu og kvíða um það sem fram undan er og það þarf engan feluleik með það. Og enn eru einhverjir staddir á afneitunarstigi, jafnvel þó öll lönd í kringum okkur séu að glíma við þennan sama vanda og alls staðar sé ljóst að veiran hefur víðtækar afleiðingar á samfélög.
Sem einn maður
Árið 2020 hefur nú þegar fært okkur aftakaveður og snjóflóð, jarðhræringar og langvinn verkföll áður en við fengum veiruna að verkefni. Í fyrsta þætti þessa ástands hafa viðbrögðin einkennst af fallegri samstöðu og þakklæti. Það hefur meira að segja reynst gerlegt að þiggja framlag einkafyrirtækis í þágu þjóðar, með samstarfi heilbrigðiskerfis og Íslenskrar erfðagreiningar í greiningu á smitum.
En reynsla af áföllum kennir okkur að fyrst kemur oft fram einhver kraftur þegar erfitt verkefni blasir við. Það er hins vegar ekki gefið að krafturinn endist eða að samfélagið standi sterkara á eftir. Þegar afleiðingar og erfiðleikar þessa ástands verða að veruleika þá reynir nefnilega fyrst á samstöðuna. Áherslan hefur eðlilega verið á heilbrigðisþættinum og næst er að mæta alvarlegri efnahagskrísunni, að verja fyrirtækin og um leið fólk frá atvinnuleysi. Alvöru leiðtogar eru síðan þeir sem muna eftir því að horfa til líðan þjóðarinnar, skynja hana og skilja.
Það verður til lengri tíma ekki síður mælistika á árangurinn, hvort tekst að tala til þjóðarinnar með þeim hætti að við höldum áfram að ganga sem einn maður. Með þau orð að leiðarljósi að við ætlum að halda áfram.