23 apr Einfaldara líf
Á seinni hluta 19. aldar, þegar langömmur mínar og afar voru að stofna fjölskyldu var lífið erfitt en einfalt. Þá voru örfá störf í boði, engir fjölmiðlar, örfáir kostnaðarliðir og einn skattur. Maturinn kom úr nærumhverfinu. Ferðalög voru kaupstaðarferð, samgöngur vorskip og haustskip. Enginn sími eða rafmagn. Messur og kvöldvökur voru dægrastyttingin.
Líf okkar fyrir samkomubann var orðið fjarska flókið. Það einkenndist oftar en ekki af skuldbindingum og tímaþröng, tímaþjófum og fullbókuðum dögum, skutli milli staða og takmarkalausu framboði af afþreyingu og endalausum ferðamöguleikum.
Í samkomubanni erum við flest að upplifa einfaldara líf en áður, nokkuð sem mætti kalla fjarlíf. Við sjáum að fjarfundir, fjarlíkamsrækt, fjartónleikar, fjarmessur, fjarkennsla og jafnvel fjarlækningar eru sjálfsagðar og krefjast minni aksturs milli staða. Tíminn nýtist betur og skutl hefur minnkað. Við höfum nú meiri tíma til að sinna samskiptum/fjarskiptum við okkar nánustu og tími til lesturs, gönguferða og útivistar er meiri.
Samkomubannið hefur einfaldað líf okkar … tímabundið. Kvöldvökur okkar eru fjarfundir með vinum og ættfólki … og þjóðin situr stjörf og horfir á heima með Helga Björns! Tíminn hefur hægt á sér hjá flestum. Börn fá meiri tíma með foreldrum heima en áður. Þó lífið sé einfalt þá blasir við að efnahagslegar afleiðingar þessa ástands eru verulegar og margir eiga um sárt að binda.
Góðu fréttirnar eru þær að ástandið er tímabundið og þegar faraldurinn er yfirstaðinn getum við öll byrjað að flækja lífið okkar aftur, fjölgað skuldbindingum og aukið hraðann.
En er það endilega það sem við viljum? Eigum við hugsanlega að breyta okkar gildum, lifa einfaldara lífi og hægja á hraðanum til frambúðar en samt viðhalda góðum samskiptum og tengslum?