09 apr Klöppum fyrir köppum
Íslenskan er fjölbreytt tungumál. Við notum til dæmis sama orð yfir hávaða og þögn …hljóð. Íslenskan er eina tungumálið í heiminum sem notar sama orðið yfir skuldir og heppni … lán. Hugsanleg skýring á mikilli skuldsetningu Íslendinga gegnum tíðina. En eina skuldsetningu eigum við að hafa nógu háa – þakkarskuldina.
Við stöndum öll í mikilli þakkarskuld við óeigingjarnt heilbrigðisstarfsfólk í landinu okkar. Þetta er fólk sem bókstaflega leggur heilsu sína að veði og stefnir oft lífi sínu í hættu innan um sjúklinga. Þau, ásamt þeim sem eru að þrífa spítalana, elda matinn, aka sjúklingum og þeir sem fara þangað með vistir og aðföng eru hetjur dagsins í dag.
Við skuldum þríeykinu góða þakkir fyrir að standa í framlínu heilbrigðismála, sóttvarna og almannavarna og fyrir að leiðbeina okkur með daglegri upplýsingagjöf. Starf þeirra og aðstoðarfólks er að skila árangri þegar þessar línur eru skrifaðar.
Í Bretlandi hafa milljónir manna farið út á götur og svalir og klappað fyrir heilbrigðisstarfsfólki. Þeir kalla það „clap for carers“. Ef við tækjum þetta upp gætum við kallað það „klöppum fyrir köppum“! Þetta var reyndar gert 19. mars síðastliðinn þegar hópur fólks klappaði í tvær mínútur saman. Hvernig væri að klappa svo hátt að viðbrögðin yrðu bókstaflega klöppuð í stein! Enn eitt dæmið um fjölbreytt tungumál okkar. Og að lokum notum við orðið auður bæði yfir ríkidæmi og eitthvað sem er tómt.
Þrátt fyrir auðar götur er mikill auður falinn í heilbrigðisþjónustunni á Íslandi. Við stöndum í þakkarskuld fyrir að hafa heilbrigðiskerfi sem er opið öllum og stendur jafnfætis því besta í heiminum í dag. Takk fyrir það!