23 apr Samspil atvinnulífs og stjórnmála
Á laugardag í dymbilviku skrifuðu þau saman grein í Morgunblaðið forsætisráðherra og framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Efni hennar var þörf og gagnleg brýning til fólksins í landinu um að kaupa íslenska framleiðslu á þessum erfiðu tímum. Athygli vakti þó að greinarhöfundar töldu ekki þörf á að hafa fulltrúa launafólks í íslenskum iðnaði með.
Veljum íslenskt
Veljum íslenskt er reyndar gamalt kjörorð, sem á ekki bara að brúka þegar þrengir að. Áður fyrr voru iðnrekendur vel vakandi fyrir því að halda þessari hvatningu á lofti hvernig sem áraði í þjóðarbúskapnum. Greinarhöfundar benda á þá samstöðu, sem tekist hefur með þjóðinni í baráttunni við kórónaveiruna. Þau hvetja til þess að sú samstaða verði yfirfærð á kaup á íslenskri framleiðslu. Það dugar meðan þannig stendur á. En þegar sú ógn verður frá eftir nokkra mánuði þarf hvatinn til þess að velja íslenskt að lifa á eigin forsendum. Það er afar mikilvægt fyrir þjóðarbúskapinn allan.
Stór heimamarkaður er forsenda kröftugrar viðspyrnu
Einn helsti styrkur íslensks iðnaðar er að eiga stóran heimamarkað. Með aðildinni að innri markaði Evrópusambandsins eru öll ríki þess heimamarkaður íslenskrar framleiðslu. En þau eru líka heimamarkaður fyrir kaup á aðföngum þeirra sem framleiða aðeins fyrir innlendan markað. Á tímum sem þessum er til að mynda ómetanlegt fyrir íslensk matvælafyrirtæki að eiga greiðan aðgang að stórum heimamarkaði við kaup á umbúðum eða efni í þær. Án þeirra væri ekki unnt að koma lífsnauðsynlegri matvöru til heimilanna í landinu. Þegar tímabundnu fjárstreymi úr ríkissjóði lýkur mun þessi markaðsstaða ráða miklu um hversu skjótt tekst að snúa taflinu við í þágu íslenskrar framleiðslu. Innan Samtaka iðnaðarins eru reyndar fyrirtæki, sem eru andvíg þeim almennu reglum um samkeppni og neytendavernd, sem gilda á öllu heimamarkaðssvæðinu. Samtökin haga málflutningi sínum í samræmi við það. Af sjálfu leiðir að það hvílir fyrst og fremst á pólitíkinni í landinu að halda á lofti rökum fyrir þessum almennu hagsmunum fyrirtækja og neytenda.
Hættan af samþjöppun og vinavæðingu
Sama dag og forsætisráðherra og framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins birtu grein sína skrifaði breska tímaritið Economist áminningu um óæskilegar afleiðingar af kórónakreppunni. „Breytið ekki kreppu í teppu,“ stóð þar. Tímaritið styður opinberar aðgerðir til að bjarga atvinnulífinu. En það telur aftur á móti hættu á óæskilegri samþjöppun og vinavæðingu þegar peningar skattborgaranna flæða inn í fyrirtækin og þau stærstu fá aukin áhrif. Fullyrt er að forystumenn í atvinnulífi séu sums staðar þegar byrjaðir að boða nýja tíma í samvinnu stjórnmála og viðskipta. Hættan sé meiri eftir því sem fleiri fyrirtæki bætist á lista yfir þjóðhagslega mikilvæga starfsemi. Þá hvetur tímaritið neytendur, kjósendur og almenna fjárfesta til að vera á varðbergi gegn þessari þróun. Hún mun að mati þess auka líkur á spillingu, minni samkeppni og hægari vexti í búskap þjóðanna.
Saga sem óþarft er að endurtaka
Hættan er sú að jafnvægið milli áhrifa stjórnmála og atvinnulífs raskist. Og þá eru almannahagsmunir í húfi. Alræðisríki eins og Rússland er ýkt dæmi um slíkt ástand. En þetta gerist líka í lýðræðisríkjum. Í Bandaríkjunum er forsetinn til að mynda að nota núverandi aðstæður til að þétta slíkt samspil stjórnmála og stórfyrirtækja. Sameiginleg grein forsætisráðherra og framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins er alls ekki til marks um að þetta sé að gerast hér. En hún er vísbending um að það er ekki langur vegur inn í ástand af þessu tagi. Og stjórnmálin geta lent þar án þess að hafa ætlað sér það. Fyrir áratugum var það íslenskur veruleiki. Það var afleiðing kreppunnar miklu. Þá sögu er óþarfi að endurtaka. Það mun draga úr sköpunarkrafti virkrar samkeppni, halda lífskjörum niðri og veikja velferðarkerfið til lengri tíma.