Æða­kerfi sam­fé­lagsins þarf að vera sterkt

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Borgar­ráð Reykja­víkur hefur, í þver­pólitísku sam­ráði, unnið að að­gerðum sem eiga að styðja við heimilin og at­vinnu­lífið vegna af­leiðinga CO­VID-19. Við erum að sjá áður ó­þekktar stærðir í at­vinnu­leysi í Reykja­vík og við því þarf að bregðast.

Störf í borginni

Nú á fyrstu dögum maí­mánaðar höfum við kynnt að­gerðir og verk­efni, sem hafa það mark­mið að efla mann­líf og at­vinnu í borginni. Ný­lega kynnti Reykja­víkur­borg aukna inn­spýtingu í við­halds­verk­efni. Þar verður á­hersla lögð á mann­afls­frek verk­efni, sér­stak­lega við við­hald skóla og leik­skóla.

Reykja­víkur­borg hefur líka á­kveðið að bæta 1.000 störfum við þau 822 sumar­störf sem við höfðum áður sam­þykkt. Lögð verður á­hersla á störf fyrir náms­menn, úr­ræði fyrir at­vinnu­leit­endur og um­sækj­endur um fjár­hags­að­stoð. Með haustinu munum við leggja til frekari að­gerðir með á­herslu á ein­yrkja og inn­flytj­endur.

Skemmti­leg borg

Í­búa­ráð fá fjár­magn til að hvetja til gleði og skemmti­leg­heita úti í hverfunum. Styrkja á mið­borgina, með auknu mann­lífi og menningu fyrir alla. Við ætlum að fjölga við­burðum, lífga við borgar­rými og markaðs­setja mið­borgina okkar allra sem á­fanga­stað Ís­lendinga. Það er líka búið að sam­þykkja að stækka menningar­pott borgarinnar til að efla menningu í borginni.

Í borgar­stjórn á þriðju­dag var fjallað um árs­reikning Reykja­víkur­borgar 2019. Hann sýnir okkur að fjár­hagur borgarinnar er sterkur og að borgin hefur þó nokkuð rými til að takast á við komandi þrengingar. Ef ekki tekst að ná tökum á at­vinnu­leysinu, sér­stak­lega með því að störf snúi aftur og ný störf verði til í einka­geiranum, geta komandi þrengingar þó orðið veru­legar fyrir sveitar­fé­lög landsins.

Það þarf jafn­vægi

Fjár­mála­svið Reykja­víkur­borgar hefur undir­búið nokkrar greiningar­myndir fyrir komandi ár og miðað við þá niður­sveiflu sem við erum í gæti frá­vik næstu fjögurra ára orðið 60 milljarðar frá þeim á­ætlunum sem Reykja­víkur­borg hafði gert.

Reykja­víkur­borg mun því þurfa að ná á­kveðnu jafn­vægi, þar sem við tökum höndum saman um að halda fram­kvæmda­stigi uppi, styðjum við þá íbúa borgarinnar sem þurfa á hinu fé­lags­lega neti að halda, hvetjum til gleði og lífs í borginni en gerum borgina ekki fjár­hags­lega ó­sjálf­bæra þegar við komum upp úr þessari niður­sveiflu, sem spáð er að verði jafn­vel jafn­djúp og kreppan mikla í upp­hafi 20. aldar.

Þungt farg á mörg sveitar­fé­lög

Sveitar­fé­lögunum er mun þrengri stakkur skorinn en ríkinu þegar kemur að hugsan­legri tekju­öflun. Hættan er sú að sveitar­fé­lögin, sem eru æða­kerfi sam­fé­lagsins og veita nauð­syn­lega grunn­þjónustu, verði lömuð til langs tíma, eigi þau einungis að bregðast við með stór­aukinni skuld­setningu.

Minni tekjur og aukin út­gjöld er á­fall sem öll sveitar­fé­lög munu þurfa að takast á við. Ekki öll eru í jafn sterkri stöðu og Reykja­víkur­borg og getur þetta orðið mjög erfitt fyrir mörg þeirra. Því hafa sveitar­fé­lögin kallað eftir sam­tali við ráð­herra sveitar­stjórnar­mála til að ræða að­komu ríkisins til að styðja við getu þeirra til að taka þátt í við­námi, auka nauð­syn­lega vel­ferðar­þjónustu, ef la vinnu­markaðs­að­gerðir og auka fram­kvæmdir sínar. Undir það á­kall tek ég.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. maí 2020