14 maí Í þágu námsmanna
Í byrjun apríl horfðu sjö þúsund námsmenn fram á atvinnuleysi vegna efnahagslegra áhrifa kórónaveirunnar, og eru þeir líklega f leiri núna. Stór hluti þessa hóps er fjölskyldufólk. Úrræði ríkisstjórnarinnar til að koma til móts við þá er að skapa rúmlega þrjú þúsund sumarstörf á vegum hins opinbera. Þetta er dökk mynd, sama hvernig henni er snúið.
Okkur er tamt að tala um að áhersla á menntun sé lykillinn að góðri framtíð. Að það sé mikilvægt að við séum þar í fararbroddi meðal þjóða. Nú í miðju efnahagshruni er mikilvægt að í nálgun okkar á menntamál fari saman orð og aðgerðir.
Í vikunni höfnuðu ríkisstjórnarflokkarnir þrír tillögu okkar í Viðreisn um að veita auknu fjármagni í atvinnuúrræði námsmanna í sumar. Þeir höfnuðu því líka að útvíkka úrræðið þannig að það næði ekki einungis til opinberra starfa heldur líka til almenna vinnumarkaðarins.
Með sömu nálgun og eftir hrun, þar sem ríkissjóður greiðir helming launa og launatengds kostnaðar á móti vinnuveitanda, leiða störf hjá fyrirtækjum og félagasamtökum til helmingi lægri kostnaðar en störf sem einungis eru á vegum hins opinbera. Þetta skapar f leiri og fjölbreyttari störf fyrir námsmenn auk þess sem ljóst er að fjölmargir námsmenn eru að mennta sig í geirum sem ekki er í boði að vinna við hjá hinu opinbera.
Ráðherrar menntamála og félagsmála héldu í gær næsta innihaldslítinn blaðamannafund þar sem engar nýjar upplýsingar komu fram til viðbótar við þær sem fólust í afgreiðslu Alþingis í vikunni. Fundurinn virðist því fyrst og fremst ætlaður til þess að draga úr eftirmálum klúðurslegra ummæla félagsmálaráðherra fyrir nokkrum dögum.
Og jú, til að upplýsa að það kæmi kannski meira fyrir námsmenn seinna. Vandinn er bara sá að tími aðgerða er núna.