04 maí Jómfrúrræða Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur á Alþingi
Fyrstu skref okkar sem þjóð í því ógnarstóra verkefni sem við stöndum frammi fyrir einkenndust af fallegri samstöðu og samkennd. Leiðarljósið hefur verið að verkefnið sé okkar allra. Áherslan var í fyrstu eðlilega á baráttuna við heimsfaraldurinn, að verja líf og heilbrigði þjóðar. Verkefnið núna er efnahagslega áfallið. Við horfumst í augu við djúpa kreppu, mögulega þá dýpstu í heila öld.
Viðreisn mun áfram styðja aðgerðir stjórnarinnar sem geta leitt fyrirtækin, atvinnulífið og þjóðina út úr erfiðum aðstæðum. Við skiljum öll hver hættan er af þessu áfalli, en það eru önnur hættumerki sem líka þarf að veita athygli. Til dæmis þær leiðir sem ríkisstjórnin hefur valið til að mæta hættunni.
Við þessar aðstæður verður Alþingi að fá að sinna sínu hlutverki. Við þessar aðstæður er lýðræðisleg umræða ekki til trafala. Umræðan er þvert á móti aldrei mikilvægari. Einmitt núna skiptir máli að hafa pólitískan kjark til að takast á um hugmyndir. Við munum þurfa að velja og hafna. Og án beittrar pólitískrar umræðu getur Alþingi ekki gætt hagsmuna almennings eins og því er ætlað. Og stjórnarandstaðan verður að fá að spyrja spurninga og sýna stjórninni aðhald.
Krafa um að hlýða bara meirihlutanum, það er ekki samstaða. Það er krafa um undirlægjuhátt.
Staðan kallar á alvöru umræðu um hugmyndafræði, forgangsröðun og framtíðarsýn. Hún kallar á að við gerum meira en að bregðast við vandanum. Við eigum að horfa til framtíðar. Reynslan af áföllum kennir okkur nefnilega að í kjölfarið skapast líka stundum tækifæri í breyttum aðstæðum.
Beinskeytt og opið samtal um hugmyndir og leiðir er þess vegna ekki bara æskilegt núna heldur nauðsynlegt.
—
Hér er hægt að horfa á ræðu Þorbjargar