07 maí Öðruvísi íþróttaár
Með hverri viku skerpist sú sýn sem við höfum á gríðarlegt umfang neikvæðra afleiðinga kórónaveirunnar. Afleiðinga sem allir landsmenn takast nú á við, á einn eða annan hátt. Einn lítill en mikilvægur þáttur er áhrifin á íþróttaiðkun barna og unglinga. Íþróttafélögin standa nú frammi fyrir ærnu verkefni, að takast á við skerðingar á tekjum og starfsemi vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar, án þess að það komi niður á öflugu og samfélagslega mikilvægu starfi þeirra.
Fjölmargar rannsóknir, íslenskar jafnt sem erlendar, hafa sýnt fram á þau jákvæðu áhrif sem skipulagt íþróttastarf hefur á námsárangur, líðan og sjálfsvirðingu barna og ungmenna. Nær óþarft er að auki að nefna forvarnargildi íþróttastarfs gagnvart skaðlegri hegðun á borð við af brot og vímuefnaneyslu. Þess vegna hef ég lagt fram þingsályktunartillögu um að öll börn 6-18 ára fái gjafabréf upp á 25.000 krónur, sem nýta megi til greiðslu iðkendagjalda hjá íþróttafélögum í sumar og næsta vetur.
Ríflega 40.000 börn og ungmenni voru skráðir iðkendur hjá íþróttafélögum innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands samkvæmt skýrslum sem var skilað inn til sambandsins fyrir árið 2018. Samdráttur í starfi íþróttafélaga, sér í lagi skerðing á fjölbreytni starfsins, eykur líkurnar á því að hópur ungmenna muni falla úr eða aldrei hefja þátttöku í íþróttastarfi. Því til viðbótar er ljóst að erfiður fjárhagur margra heimila vegna COVID19 mun einfaldlega draga úr getu fólks til að standa undir kostnaði við íþróttaiðkun barna og unglinga.
Gjafabréfið kemur í veg fyrir að börn og ungmenni þurfi að láta af þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi vegna efnahagsástandsins og dregur á sama tíma úr fyrirliggjandi tekjutapi íþróttafélaganna. Það er vissulega hörð samkeppni um stuðning hins opinbera þessa dagana. Þetta mál er hins vegar af þeim toga að ég geri mér góðar vonir um að það hljóti jákvæðar undirtektir. Þetta verður öðruvísi íþróttaár, en við getum látið það verða gott íþróttaár.