25 maí Sólborg og Bergið fá Uppreisnarverðlaun
Uppreisn, ungliðahreyfing Viðreisnar, veitti á laugardag Uppreisnarverðlaunin, sem eru árlega veitt sem viðurkenning á og þakklætisvott fyrir óeigingjarnt starf í þágu frelsis, jafnréttis og opnara samfélags, en það eru grunngildi félagsins. Verðlaunin eru veitt í tvennu lagi, annars vegar til einstaklings og hins vegar til fyrirtækis eða félagasamtaka.
Sólborg Guðbrandsdóttir hlaut verðlaunin í einstaklingsflokki en hún hefur stuðlað að þessum gildum, sér í lagi í þágu kynfrelsis með fyrirlestrum sínum og samfélagsmiðlaðganginum Fávitar. Hún hefur brotið niður múra í umræðunni um kynhegðun ungmenna og barist fyrir sjálfsákvörðunarrétti þeirra og upplýsingu um heilbrigði, jafnt líkamlegt og andlegt.
Bergið hlaut verðlaun í flokki félagasamtaka. Starfsemi Bergsins hefur vakið athygli frá stofnun og er þarft framtak í íslensku samfélagi. Ekki er hlaupið að andlegri ráðgjöf hérlendis og líður ungt fólk oft fyrir fjár- og úrræðaleysi. Bergið brúar bilið fyrir ungmenni sem oft geta ekki leitað annað.
Verðlaunin voru veitt í þriðja sinn í höfðustöðvum Viðreisnar. Síðustu tvö ár hafa Benedikt Jóhannesson og Sigga Dögg hlotið einstaklingsverðlaunin, Frú Ragnheiður og W.O.M.E.N. in Iceland hlotið félagsverðlaunin.
Á meðfylgjandi mynd má sjá Sólborgu Guðbrandsdóttur, Starri Reynisson, forseta Uppreisnar og Sigurþóru Bergsdóttur, framkvæmdastjóra Bergsins.