04 maí Það sem ríkið þarf ekki að gera
Íbaráttunni við COVID-19 hefur enginn skortur verið á hræðilegum hugmyndum. Þar má nefna áætlanir Andrew Cuomo, ríkisstjóra New York, til að þvinga fanga til að framleiða sótthreinsispritt launalaust. Lyklaborðskommúnistar þarlendis sögðu þetta lausnina sem markaðshagkerfið byði upp á. Menn þurfa hins vegar að vera djúpt sokknir í pólitískum kreddum til þess að halda að ríkisvald sem þvingar fólk í nauðungarvinnu fyrir skipulagða framleiðslu endurspegli markaðshagkerfi.
Verðfrysting á spritti og andlitsgrímum hefur einnig borið á góma, jafnvel að ríkisstjórnir stilli verð niður í brotabrot af framleiðslukostnaði. Í fljótu bragði kann það að hljóma vel en það liggur í augum uppi að ef verði á vöru er haldið niðri með valdi hverfur hvati einstakra fyrirtækja til að breyta háttum og hefja framleiðslu á slíkum vörum. Með lágmarksverð og þ.a.l. lágmarksframleiðslu hvetja stjórnvöld þá sem selja vörurnar til þess að sitja á þeim og framleiða ekkert og skapa þar með skortinn sem þau vildu forðast í upphafi. Vísast er að leyfa framleiðendum og kaupendum að ákveða verð og stilla framleiðslu í takt við það. Slíkt veitir samkeppnishæfustu aðilunum tækifæri til að framleiða það magn sem heilbrigðisstarfsfólk og aðrir þurfa til þess að takast á við faraldurinn. Nú þegar hafa verkstjórar í bavarískum bílaiðnaði og bandarískum málningarverksmiðjum séð hag sinn í framleiðslu á öndunarvélum og spritti, án afskipta þarlendra yfirvalda.
Ríkið þarf ekki að skikka málningarframleiðendur og bílaverksmiðjur (eða þvinga fanga) til að breyta framleiðslulínum og búa til lífsnauðsynlegan hlífðarbúnað eins og grímur og spritt. Ríkið þarf heldur ekki að skipuleggja vörudreifingu og heimsendingu til tugþúsunda manna á svipstundu.
Við njótum öll góðs af því að fyrir nokkrum árum síðan sáu áhættusæknir frumkvöðlar fyrir sér framtíð þar sem hver sem er gæti pantað hvað sem er (og sér í lagi mat) á Internetinu og fengið það sent heim að dyrum. Allir sem hafa unnið með matvöru þekkja að það er hægara sagt en gert að koma henni frá býli til bæjar í góðu lagi og hvað þá lokametrana að matarborðinu. Allir sem hafa unnið við vefforritun þekkja líka að það tekur marga forritara mörg ár með margar milljónir að þróa hugbúnað sem uppfyllir kröfur almennings. Við stillum gæðakröfurnar okkar við stafrænar vörur frá Facebook, Apple og Amazon með sína tugi þúsunda hugbúnaðarverkfræðinga og hönnuði. Lítill sproti þarf að keppa við það til að halda athyglinni okkar og viðskiptum. Það er þeirri vinnu að þakka að við getum núna tekist á við faraldurinn betur en ella.
Ríkisstjórnir um allan heim þurftu að skipuleggja ýmislegt við upphaf árs til þess að búa sig undir heimsfaraldurinn. Margar hefðu líka mátt huga að því betur á árunum í aðdraganda veirunnar, eins og að ganga úr skugga um nægar birgðir fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Blessunarlega hefur þó framtak fyrirtækja og einstaklinga dregið úr áhyggjum um matvælaöryggi og framleiðslu á lífsnauðsynlegum birgðum. Því hugviti og þeirri forsjálni megum við vera þakklát.