Þegar himnarnir opnast

Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir

Síðustu mánuði höfum við upplifað nýjan veruleika sem hefur einkennst af aðgerðum til að stemma stigu við COVID-19. Vinnumenningin breyttist þegar vinnustaðirnir fluttust inn á heimilin og tæknivæðing skóla átti sér stað á nokkrum vikum, sem annars hefði eflaust tekið einhver ár. Lykillinn að árangrinum hefur byggst á samstöðu þjóðarinnar og skilningi á mikilvægi samstöðunnar. Aðgerðirnar hafa hins vegar bæði falið í sér takmarkanir á okkar daglega lífi og á ákveðnum mannréttindum, eins og ferðafrelsi og frelsi til atvinnu. Önnur lönd hafa gengið umtalsvert lengra, t.d. með útgöngubanni. Á heimsvísu höfum við svo séð himnana lokast. Og lönd lokast.

Ein stærsta spurningin núna er hvað við ætlum að gera þegar þessum aðgerðum linnir. Einhverjar þessara breytinga eru nefnilega komnar til að vera, aðrar augljóslega ekki en um aðrar vitum við ekki. Verkefnin eru stór og þá skiptir máli að stjórnmálin fái tíma til að svara þessari spurningu, þannig að leiðirnar sem verða fyrir valinu byggi á niðurstöðu pólitískrar umræðu. Umræðan er aldrei mikilvægari. Fókusinn er sem stendur á efnahagsaðgerðum. Atvinnulífið okkar byggir á fáum stoðum og þegar þær verða fyrir höggi verða afleiðingarnar alvarlegar. Þess vegna er það ekki bara hjal að tala fyrir nýsköpun, háskólamenntun og rannsóknum og að þora að veðja á skapandi greinar. Fjölbreyttara atvinnulíf er lykillinn að því að verjast áföllum og hluti af því að sækja fram. Nýsköpun í ferðaþjónustunni reyndist okkur t.d. dýrmæt eftir hrun. Nýsköpun á sér nefnilega stað í öllum greinum en hana þarf að rækta eins og annað.

Samhliða þessu þarf að rýna breytingarnar sem hafa orðið á okkar daglega lífi og vera meðvituð um þýðingu mannréttinda. Samstaða þjóðarinnar hefur haft allt um góðan árangur að segja. Markmiðið var skýrt. Nú reynir á samstöðuna um að frelsi og lýðræði verði kjarni viðreisnar þjóðarinnar, en ekki fjötrar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 21. maí 2020