18 jún Sá gamli kíkir upp úr kistunni
Þegar ég var strákur heyrði ég í útvarpinu viðtal við mann af erlendum uppruna sem hafði búið lengi á Íslandi. Sá sem tók viðtalið spurði, eins og þá var algengt hér á landi, hvort viðmælandinn hefði orðið var við minnimáttarkennd Íslendinga. Svarið kom á óvart. „Nei, það hef ég aldrei fundið. Hitt er miklu algengara að ég hafi fundið fyrir meirimáttarkennd landsmanna.“
Sagt er glöggt sé gests augað. Þetta einkenni kemur fram á tvennan hátt. Sumir telja að fulltrúar þjóðarinnar eigi að láta sem mest á sér bera á alþjóðavettvangi, hvert sem umræðuefnið er.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra skrifaði árið 1970: „[V]irðing smáþjóða stendur yfirleitt í öfugu hlutfalli við mælgi þeirra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Menn verða þar, ekki síður en annars staðar, að hafa eitthvað raunverulegt til málanna að leggja.“ Ekki er þar með sagt að Íslendingar eigi aldrei að nýta sér réttinn til að láta rödd sína heyrast ytra, heldur að þegar þeir tala, þá hafi þeir eitthvað að segja. Þetta mættu stjórnmálamenn og aðrir spekingar líka hafa í huga hér á heimavelli.
Hitt er hin undarlega árátta að telja allt best vegna þess að það sé íslenskt. Á Viðskiptaþingi 2007 kynnti starfshópur niðurstöður sínar undir yfirskriftinni Ísland best í heimi. „Við hrindum brjáluðum hugmyndum í framkvæmd og látum þær ganga upp“, sagði Halla Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, og hló. Forseti Íslands flutti um þetta leyti „fræðileg“ erindi um yfirburði Íslendinga, bæði við Harvard-háskólann og á fundi Sagnfræðingafélags Íslands. Árið 2008 hrundi bankakerfið og þúsundir Íslendinga festust í skuldafeni eða töpuðu öllu.
Hluti af sjálfbirgingshættinum er að Íslendingar hafi ekkert til útlanda að sækja. Útlendur matur sé hættulegur og samskipti við útlendinga geti verið skaðleg. Verst af öllu sé að leita fyrirmynda eða þekkingar í útlöndum. Reglur eða lagabálkar sem gilda í útlöndum séu líkleg til að spilla hér öllu. Ekki komi til greina að lúta alþjóðlegum eftirlitsstofnunum eða dómsvaldi, alveg án tillits til þess hvort lögin og reglurnar sem dæmt er eftir séu sanngjörn og skynsamleg. Þyrlað er upp moldviðri og búinn til óvinur í þeim tilgangi einum að vekja ótta og ná athygli. Sáð er fræjum tortryggni og efasemda, jafnvel hjá skynsömu fólki.
Morgunblaðið er málgagn stórútgerðarmanna. Í gær birtust skilaboð eigendanna um Evrópusamstarfið, sem blaðið líkir í forystugrein við einvaldskonung sem kíkir upp úr kistunni. Sem kunnugt er kusu stjórnvöld árið 1993 aukaaðild að Evrópusambandinu, án atkvæðisréttar fyrir Ísland. Það er vel við hæfi að enda þennan pistil eins og forystugreinina: „Einhvern tíma birtir til og menn taka við af mannleysum og hrinda þessari niðurlægingu burt.“
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. júní 2020