25 jún Þorvaldur eflir Bjarna en veikir Katrínu
Fróðlegt er að skoða deiluna, sem staðið hefur um ráðningu ritstjóra Nordic Economic Policy Review, í þessu ljósi. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafnaði tillögu um ráðningu Þorvaldar Gylfasonar prófessors til starfsins.
Forsendur ákvarðana
Allar ákvarðanir ráðherra þurfa að uppfylla tvö skilyrði. Annars vegar þarf heimildin til þess að taka ákvörðun að hafa stoð í lögum. Hins vegar þarf ákvörðunin sjálf að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum.
Deilan um það hvort ákvörðun ráðherra rímar við þessar grundvallar forsendur er áhugaverð. Hitt er þó ekki síður vert að skoða, hvernig þetta mál virðist hafa mismunandi pólitísk áhrif í baklöndum forsætisráðherra og fjármálaráðherra.
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar tók málið upp á Alþingi. Hann beindi spurningum sínum réttilega til Katrínar Jakobsdóttur. Forsætisráðherra á að svara fyrir einstakar athafnir ráðherra ef áhorfsmál þykir vera hvort þær eru innan valdmarka, byggja á málefnalegum forsendum eða standast siðareglur.
Fölskvalaus vörn
Athyglisvert er að í vörn sinni staðhæfði forsætisráðherra aðeins að ákvörðunin byggði á lögmætum heimildum. Hún vék sér hins vegar hjá því að leggja mat á málefnalegar forsendur hennar og samræmi við siðareglur.
Á því getur verið fleiri en ein skýring. Hugsanlega hafði hún efasemdir um þau atriði og vildi láta fjármálaráðherra standa einan á köldum klaka með þann hluta varnarinnar. En hún gæti líka hafa talið málefnalegu rökin hafin yfir allan vafa þannig að ekki þyrfti að eyða púðri í þau í knöppum ræðutíma.
Tilfinningin er sú að forsætisráðherra hafi fölskvalaust ætlað að skjóta skildi fyrir fjármálaráðherra.
Málefnaleg rök óumdeild
Málefnalegu rökin fyrir því að hafna Þorvaldi Gylfasyni eru pólitísk athafnasemi hans og andstaða við stjórnarflokkana. Þó að rökin hafi valdið deilum á Alþingi eru þau nokkuð óumdeild í baklandi þingmanna Sjálfstæðisflokksins.
Þar hefur verið vaxandi fylgi við þá kröfu að auka áhrif stjórnmála og draga úr áhrifum sérfræðinga í stjórnsýslu til að mynda við mat á málefnalegum rökum fyrir ákvörðunum. Fyrir því eru meðal annars færð þau rök að stjórnmálamenn séu lýðræðislega kjörnir en embættismenn ekki. Þetta styrki því lýðræðið.
Sums staðar í Evrópu ganga menn reyndar miklu lengra í þessum efnum eins og í stjórnarflokknum Lögum og rétti í Póllandi. Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að sama evrópska flokkabandalagi og Lög og réttur, eftir að hann hætti fyrir nokkrum árum að eiga samleið með hófsömum hægri flokkum eins og Kristilegum demókrötum í Þýskalandi.
Hér heima höfðar Sjálfstæðisflokkurinn helst til kjósenda Miðflokksins í baráttunni um jaðaratkvæði lengst til hægri. Þar eru sjónarmið af þessu tagi mjög hávær.
Flest bendir því til þess að þetta mál hafi styrkt stöðu Bjarna Benediktssonar inn á við og gagnvart kviklyndu fylgi Miðflokksins.
Málefnaleg rök umdeild
VG hefur aftur á móti staðið fyrir viðhorf, sem eru nær miðjunni í þessum efnum. Þau byggja á því að meirihlutavald stjórnmálamanna þurfi að tempra til að styrkja lýðræðið og verja einstaklingsfrelsið.
Einn þáttur valdtemprunar felst í því að embættismenn og sérfræðingar leggi ráðgefandi mat á lögmæti stjórnarathafna og hvort þær uppfylli málefnalegar forsendur.
Tilvísun í pólitíska afstöðu þarf ekki að vera ómálefnaleg, en stjórnmálamenn eru frjálsari að því en sérfræðingar og embættismenn að beita slíkum rökum eftir því sem henta þykir eða að geðþótta.
Þarna hefur VG einfaldlega aðra ímynd en Sjálfstæðisflokkurinn. Málefnaleg rök fjármálaráðherra eru þar af leiðandi umdeild í baklandi forsætisráðherra og á þeim miðum, sem vænlegust eru til fylgisaukningar fyrir VG .
Málið gengur því á trúverðugleikainnistæðu Katrínar Jakobsdóttur í eigin röðum og gagnvart miðju stjórnmálanna.