Að vaxa upp úr fermingarfötunum

Þorsteinn Pálsson

Lífeyrissjóðirnir eru hornsteinn velferðarsamfélagsins og um leið ein helsta undirstaða hagkerfisins. En rétt eins og unglingar vaxa upp úr fermingarfötunum, hafa lífeyrissjóðirnir vaxið hagkerfinu yfir höfuð. Senn mun stærð þeirra nema tvöfaldri landsframleiðslu.

Jafn ágætt og það er verður augunum ekki lokað fyrir hinu, að hlutfallið milli stærðar sjóðanna og smæðar peningakerfisins veldur vandræðum.

Ný gjaldeyrishöft

Um leið og gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar skruppu saman, brustu forsendur fyrir frjálsum gjaldeyrisviðskiptum. Ný víðtæk gjaldeyrishöft voru því eðlilega fyrsta viðbragð stjórnvalda.

Ísland er reyndar eina Evrópuríkið, sem þurfti að grípa til hafta vegna kórónaveirunnar. Áfallið var þó ekki þyngra hér en annars staðar. Afleiðingarnar geta hins vegar orðið verri vegna haftanna.

Verðgildi krónunnar ræðst ekki lengur af aðstæðum á markaði. Það hefur aftur í för með sér að gjaldmiðillinn getur síður sinnt því meginhlutverki að leiðbeina þjóðinni um arðsemi hlutanna. Slíkur áttaviti er forsenda þess að markaðshagkerfið dafni og þrífist eðlilega.

Höftin nú eru óvenjuleg um þrennt. Þau beinast aðeins gegn hagsmunum lífeyrisþega. Að formi til eru þau sett á með samningum þar sem gagnaðili stjórnvalda hefur enga samningsstöðu eða er stillt upp við vegg eins og í amerískum vestra. Engin lagastoð er fyrir þessari aðgerð.

Mismunun

Fylgifiskurinn er skýr: Kostir launafólks, sem þarf að ávaxta lífeyrissparnað sinn, eru heftir. En aðrir, þar á meðal þeir sem þurfa að ávaxta einokunarhagnað af nýtingu náttúruauðlinda, hafa frjálsar hendur.

Höftin, sem sett voru eftir hrun, giltu í rúm átta ár. Þá hækkaði heimsvísitala hlutabréfa um ríflega 140 prósent. Á þeim þremur árum, sem gjaldeyrisviðskipti voru síðan frjáls, hækkað hún aðeins um 3 prósent. Eftir að höftin voru sett aftur á í mars hefur hún svo hækkað um 25 prósent.

Þetta er vitaskuld gróft dæmi af sveiflukenndum heimsmarkaði. En það sýnir hversu mismunandi tækifærin eru innan og utan hafta. Og nú er það bara félagslega fjármagnið, sem er heft við krónur. Tilgangur stjórnvalda er örugglega ekki að stórauka eignalega mismunun, en hætt er við að það verði afleiðingin.

Skekkir verðmyndun og veldur hættu á eignabólu

Þegar lífeyrissjóðirnir hafa vaxið upp úr fermingarfötunum er of lítið um innlendar eignir þar sem pund þeirra getur ávaxtast. Þessi vandi magnast þegar þeir eru aftur settir í höft.

Stjórnvöld segja nú við fjármagnseigendur að þeir verði að taka áhættu með kaupum á innlendum hlutabréfum. Klípan er sú að hér er mjög lítið um almennt einkafjármagn. Einokunarfjármagn vegna auðlindanýtingar er talsvert. Félagslegur sparnaður í lífeyrissjóðum er stærsti hluti áhættu fjármagnsins.

Allir eru frjálsir að því að taka þessari áskorun stjórnvalda, nema lífeyrissjóðirnir. Þeir eiga ekki annarra kosta völ. Fyrir eiga þeir um helming skráðra hlutabréfa. Hætta er á að höftin skekki verðmyndun hlutabréfa enn frekar og valdi bólumyndun á eignamarkaði.

Þannig eru höftin ekki bara ógn við hagsmuni launafólks og lífeyrisþega. Þau geta líka veikt samkeppnisstöðu atvinnulífsins.

Tímabundnar aðstæður ýkja grundvallarvanda

Þær óvenjulegu aðstæður, sem eru orsök haftanna, ýkja grundvallarvanda þar sem stórt lífeyrissjóðakerfi situr á vegasalti lítils peningahagkerfis. Þó að gjaldeyristekjur aukist smám saman á næstu árum hverfur vandinn ekki. Hlutföllin halda áfram að skekkjast.

Eftir því sem skuldir ríkisins verða stærri hluti af eignum lífeyrissjóða, eykst svo hættan á að forsendurnar fyrir sjálfstæðu sjóðsöfnunarkerfi veikist. Vilja menn það?

Skiljanlega sér verkalýðshreyfingin skammtímahag í því að fallast á að stjórnvöld noti eða misnoti lífeyrissjóðina sem hagstjórnartæki til að koma í veg fyrir frekara fall krónunnar. En sá ávinningur er dýrkeyptur: Aukin áhætta með lífeyrissparnað almennings, hætta á aukinni misskiptingu og líkur á lélegri framleiðni og arðsemi.

Hér er ekki við verkalýðshreyfinguna að sakast. Það stendur upp á stjórnvöld að svara hvernig þau vilja skipa þessum málum til framtíðar. Þar er fátt um svör. Aðallega þögn. Hún er einn helsti veikleiki hagþróunar á Íslandi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 9. júlí 2020