06 júl Listaháskólann í Kópavog?
Yfir Fossvoginn og upp að Elliðavatni bárust mér nýverið þær fréttir að starfsmenn ríkisvaldsins hefðu farið í könnunarvinnu til að velja Listaháskólanum nýtt heimili.
Í ljós kom að hjá þeim reyndust aðeins tveir valkostir kannaðir, að byggja við SS húsið i Laugarnesi eða byggja í Vatnsmýrinni. Ekki bera þau vinnubrögð með sér að víðsýni hafi ríkt við könnunarvinnuna.
Að mínu mati er ekkert óeðlilegt við það að fjölmennasta sveitarfélag landsins sem ekki er borg, hýsi eins og einn öflugan háskóla.
Ég tel að Kársnesið í Kópavogi sé tilvalinn staður fyrir nýtt heimili háskólanáms í listum. Á Kársnesinu eru stórar lóðir sem nýtast vel í þetta hlutverk og aðgengi að skólanum verður frábært með Borgarlínu og nýrri brú yfir Fossvoginn.
Ég hvet bæjarstjórn Kópavogs til að fylgja málinu eftir og skora á ríkisvaldið til að sjá út fyrir 101 & 102 og telja upp í 200….Kópavogur!
Höfundur er formaður Viðreisnar í Kópavogi