Nú er loks að bregða til tíðinda í stjórnar­skrár­málum. Væntan­legar breytingar verða sjálf­sagt boðaðar með fjöl­miðla­í­myndar­funda­her­ferð að hætti ríkis­stjórnarinnar. En það er lítil von til að þær snúist um það sem stór hluti þjóðarinnar hefur í­trekað kallað eftir: Jöfnun at­kvæðis­réttar óháð bú­setu. Óháð öllu nema því sjálf­sagða rétt­læti að hver einasta kosninga­bæra manneskja fái að eiga eitt heilt at­kvæði. Í öðru lagi trúi ég að margir hafi í­myndað sér að það ætti loksins og af marg­gefnu til­efni að drífa í því að gull­tryggja tíma­bundna út­hlutun afla­heimilda í stjórnar­skránni til að festa eignar­hald þjóðarinnar ó­um­deilan­lega í sessi. Ekki bara í orði, heldur á borði.

Mörgum hefur á­reiðan­lega verið farið eins og mér, að vona að hér yrði lagður grunnur að raun­veru­legum breytingum í þágu al­manna­hags­muna. Auð­vitað felst samt vís­bending um að svo verði ekki, í því að það má ekki nefna til­lögur Stjórn­laga­ráðs í þessari vinnu frekar en snöruna í hengds manns húsi. Ef ein­hverjar breytingar sjá dagsins ljós, verða þær lægsti mögu­legi sam­nefnarinn sem í­halds­ríkis­stjórnar­flokkarnir þrír geta komið sér saman um. Til dæmis að kjör­tíma­bil for­seta Ís­lands verði sex ár í stað fjögurra og að hann sitji mögu­lega í mesta lagi tvö kjör­tíma­bil. Er þetta breyting sem helst brennur á fólki?

Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra henti svo inn trompi í vikunni. Hún tók eftir því að meðal ríf­lega 200 um­sagna sem bárust í sam­ráðs­gátt stjórn­valda, og sneru nota bene lang­flestar að því að gagn­rýna ára­langa hunsun stjórn­valda á niður­stöðum þjóðar­at­kvæða­greiðslu um til­lögur Stjórn­laga­ráðs frá 2012, þá var um­sögn um að réttast væri að miða kosninga­rétt við árið sem fólk verður á­tján ára, en ekki af­mælis­dag. Þarna er nú mál sem hægt er að taka góðan tíma í að ræða – svo góðan að ekki gefst tími til að vinna aðrar mikil­vægari breytingar. Ríkis­stjórnin ætlar sér í sýndar­breytingar þrátt fyrir á­kall um annað.

Nema jafn­vel það að miða kosninga­rétt við fæðingar­ár sé of stór biti fyrir þessa ríkis­stjórn. Það skyldi þó aldrei vera?

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. júlí 2020