Ég er ekki rasisti, en…

Benedikt Jóhannesson

Þegar lestarspor teygðu fyrst anga sína um sveitir Evrópu urðu margir tortryggnir. Víða snerist almenningsálitið gegn þessu nýja fyrirbæri og margir töldu að lagningin væri samsæri gegn fátæku fólki og voru tortryggnir í garð breytinganna. Hestar höfðu þjónað mönnum vel um aldir og hvers vegna að breyta til?

Snemma árs 1976 bannaði ríkisstjórn Íslands tímabundið innflutning litasjónvarpstækja. Á Alþingi kom þá fram tillaga um að sjónvarpið hæfi útsendingar í lit. Einn þingmaður kallaði hugmyndina „hégóma og fordild“. Sjónvarp væri víða um heim hrein plága og óþarfi að apa slíkt eftir útlendingum. Annar tók undir þessi sjónarmið, en benti þó á að litasjónvarpstæki gæfu ríkissjóði tolltekjur. Sá þriðji bætti við því áliti erlendra kunnáttumanna „að dagskrá hefði hvergi batnað við litaútsendingu.“

Nú á dögum hendist fólk fram og aftur um heiminn í leit að vinnu, betri lífskjörum eða ævintýrum. Foreldrar ættleiða börn frá fjarlægum heimshlutum. Smám saman verður samsetning samfélagsins flóknari. Tugir þjóða eiga fulltrúa í sjávarbyggðum víða um Ísland. Með breyttum tímum vaknar oft ótti við það óþekkta. Núna hlæjum við öll að búrahættinum í dæmunum hér að framan. Vonandi kemur sem fyrst sá tími að við hristum öll höfuðið yfir fordómum samtímans.

Ofbeldi lögreglumanna í Bandaríkjunum gegn svertingjum kristallaðist nýlega í óhugnanlegri árás á George Floyd sem lést eftir grimmilega meðhöndlun laganna varða. Í kjölfarið brutust út óeirðir í mörgum fylkjum og hreyfingin Black Lives Matter varð áberandi.

Kænir pólitíkusar kunna vel þann leik vel að spila á tilfinningar hinna óttaslegnu. En í nútímaþjóðfélagi gengur ekki að koma út úr skápunum og segja: „Skjótum þennan svarta skríl.“ Nei, það þarf að pakka skilaboðunum inn í bómull, en ná samt eyrum þeirra óttaslegnu.

Stjórnmálamenn sem hafa óvart sýnt sitt rétta eðli og talað niðrandi um svertingja byrja eftiráskýringar oft á því að segja að „sumir af bestu vinum þeirra séu svartir.“ Nú eru þeir sem halda að þeir séu enn í felum með sína fordóma búnir að finna upp nýtt slagorð: All Lives Matter! Enginn getur verið á á móti því, en baráttan gengur síst út á mikilvægi eins lífs framar öðru, heldur að ekki sé hægt að drepa svertingja eins og þeir séu meindýr. Á Íslandi fiska slægir stjórnmálamenn í þessu grugguga vatni og verða varir, en veiðin er líklega mest marhnútar og afætur, þótt einstaka happadráttur fylgi stundum.

Rasistinn er sem betur fer auðþekkjanlegur og létt að forðast hann. Hann talar háðslega um „góða fólkið“, „rétttrúnaðinn“ og „fórnarlambamenningu“. Hann er sá sem gerir gys að konum og fötluðum í góðra vina hóp. Þegar hann útskýrir að „hann sé alls ekki rasisti, en …“ erum við alveg viss.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14.8.2020