Lýst eftir umhverfisáherslum!

Af hverju er áhersla á umhverfismál ekki alltumlykjandi í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar sem við ræðum nú á Alþingi? Af hverju er ekki verið að verja hluta fjármagnsins í atvinnuskapandi aðgerðir til að draga úr mengun í landbúnaði og samgöngum? Af hverju er ekki verið að leggja aukinn kraft í atvinnuskapandi rannsóknir á grænni tækni?

Hvar eru umhverfissjónarmiðin þegar samningar standa yfir um ríkisábyrgð fyrir Icelandair? Hvar er umhverfisráðherra þegar offramboð er af ráðherrum ríkisstjórnarinnar á fjölmiðlafundum þar sem fjallað er um kórónuveirutengd mál?

Heimurinn „mun […] aldrei verða á sama rólinu aftur. Við verðum að átta okkur á því að við munum ekki leita inn í nákvæmlega eins hagkerfi. […] Þetta mun breyta mörgu í samskiptum í heiminum og hvernig menn munu hugsa.“

Þessi orð lét Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, falla á fyrsta blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í lok febrúar sl. Hann fékk sérstakt lof fyrir þessa framsýni, enda eigum við henni ekki að venjast hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar. En voru þetta bara orðin tóm eða nær hin nýja hugsun ríkisstjórnarinnar ekki til umhverfisverndar?

Umhverfismál, sér í lagi loftslagsmál þar sem við erum í miklum vanda varðandi það að mæta alþjóðlegum skuldbindingum, verða að vera í forgrunni hjá stjórnvöldum. Við stöndum frammi fyrir nýjum og krefjandi úrlausnarefnum sem kalla á nýjar lausnir. Þær lausnir eru mun líklegri til að verða til í samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs þar sem nýsköpun og vöruþróun eru vænlegri til árangurs en eingöngu boð og bönn og skattar.Sjálfbærni, samkeppni og nýsköpun eru leiðarstef sem eiga að ríkja í öllum atvinnurekstri. Eitt af stærstu viðfangsefnum stjórnvalda er að skipa umgjörð sem gerir atvinnulífinu betur kleift að vera öflugur þátttakandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Við í Viðreisn teljum að nú sé lag til að leggja virkilegan kraft í þessi mál. En þá þarf líka vilja stjórnvalda til. Er sá vilji til staðar?

Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar.

Greinin birtist fyrst á Vísi 28. ágúst 2020