19 ágú Stjórn á óvissutímum
Það ríkir óvissa og margt fólk hefur miklar áhyggjur af eigin framtíð og velferð. Álagið er víða. Það er mikið hjá þeim sem eru í pólitísku forsvari í umboði þjóðarinnar og þeim sem reka stofnanir samfélagsins. Ekki síður gildir það um þau sem stjórna atvinnurekstri í landinu eða gæta hagsmuna vinnandi fólks. Þá má ekki gleyma þeim sem bera ábyrgð á heimilisrekstri og framfærslu og velferð fjölskyldu sinnar.
Ríkisstjórn hvers tíma er í lykilhlutverki þegar kemur að því að tryggja að gangverk samfélagsins starfi hnökralaust og samfélaglegir innviðir og stjórnkerfi séu í stakk búin til að takast á við margvísleg verkefni og mæta áföllum af ýmsu tagi – líka þeim sem eru ófyrirséð.
Margvíslegar aðferðir, tól og tæki, eru tiltæk úr heimi stjórnunarfræða og verkefnastjórnar. Má þar nefna hluti eins og áhættustjórnun, krísustjórnun, kostnaðar- ábatagreiningar og sviðsmyndagreiningar. Árangur næst hins vegar ekki nema þeim sé beitt markvisst og með opnum hætti þannig að hvert skref sé öllum ljóst og hvaða afleiðingar það hefur. Þeir sem verða fyrir neikvæðum afleiðingum viti hvort og hvernig verður brugðist við þeim. Hve lengi ráðstafanir eiga að gilda og hvaða árangri á að ná. Það þarf líka að vera ljóst hvað gerist ef tiltekinn árangur næst ekki – hvað skref verða þá tekin, verða reglur hertar? Hvað ef betri árangur næst, verður þá slakað?
Upplýsingar, samráð og vönduð greiningavinna er forsenda árangurs. Allir þurfa að skilja hvað er verið að gera og af hverju. Aðeins með þessum hætti er unnt að draga úr óvissu og skapa traust og trú á því að árangur náist. Takist það ekki er hætt við því að staðan versni og sundrung aukist og þannig glutrist niður sú mikla samstaða sem hér varð þegar við urðum öll almannavarnir. Það má ekki gerast.
Því miður eru sterk teikn á lofti um að ríkisstjórnin rísi ekki undir því hlutverki sem er bráðnauðsynlegt að hún axli.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar