15 sep Hvar er frjálslyndið?
Innflytjendur og flóttamenn auðga íslenskt samfélag, hvort sem horft er á menningarlega eða efnahagslega þætti. Þeir bæta matarmenningu, flytja með sér þekkingu, taka þátt í nýsköpun og skila heilmiklu til samfélagsins í formi vinnu og skatta. Samfélag þar sem lækkandi fæðingartíðni er staðreynd hefur ekki efni á því að hafna fólki sem langar að taka þátt í því. Við eigum að vera þakklát, sýna mannúð og taka fólki opnum örmum, þannig byggjum við frjálslynt, opið samfélag til lengri tíma.
Síðan 2013 hefur Sjálfstæðisflokkurinn óslitið farið með stjórn í málefnum útlendinga, innflytjenda og flóttamanna. Það verður seint sagt að sú stefna sem keyrð hefur verið á þeim tíma sé frjálslynd eða mannúðleg. Fólki, einstaklingum, fjölskyldum og börnum er ítrekað vísað úr landi jafnvel þó þau hafi dvalið hér í talsvert langan tíma, aðlagast vel, kunni vel við sig og vilji leggja til samfélagsins.
Dómsmálaráðherra kveðst ekki ætla að skipta sér af einstökum málum, henni finnst ótækt að breyta reglugerð til þess eins að „bjarga einstaka fjölskyldum sem fara í fjölmiðla”. Þau „einstöku mál” sem hafa komið upp á síðustu árum eru þó orðin það mörg að ekki er hægt að efast um að lagaramminn sé meingallaður. Krafan og þörfin fyrir mannúðlegri og frjálslyndari löggjöf sem gerir þeim sem vilja kleift að koma hingað, setjast að, festa rætur og taka þátt í samfélaginu er skýr.
Þegar nýr, ungur ráðherra sem hefur alla tíð spyrt sig við frjálslynda hugmyndafræði tók við málaflokknum fyrr á þessu kjörtímabili bundu ég og fleiri vonir við að málin myndu þokast til betri vegar. Það hefur ekki orðið, heldur hefur hún viðhaldið mannvonskulegri íhaldsstefnu forvera sinna. Það er því ekki nema von að spurt sé, Áslaug, hvar er frjálslyndið?
Höfundur er forseti Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar.