Stór skref eru svarið við kreppunni

Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir

Mark­mið stjórn­valda og sam­fé­lags­ins alls núna er að verja heil­brigði, efna­hag og líðan þjóð­ar­inn­ar. Verk­efnin eru stór og staðan er þung. Það eru hins vegar jákvæð teikn á lofti því það virð­ist ástæða til að ætla að þessi kreppa verði ekki löng. Það þarf að slökkva eld­inn sem logar.

Spá Seðla­bank­ans gerir ráð fyrir mik­illi nið­ur­sveiflu 2020-2021. Þessi spá hefur þýð­ingu um hvernig aðgerðir geta best leyst vanda þeirra fyr­ir­tækja og ein­stak­linga sem hafa orðið fyrir því að inn­koma þeirra hefur horf­ið. Spár gera ráð fyrir 10% atvinnu­leysi í haust sem er ekki veru­leiki sem við eigum að venj­ast hér á landi. Rík­is­stjórnin hefur nú þegar lagt fram all­nokkrar aðgerð­ir, margar alveg ágætar en skrefin hafa hins vegar verið of lít­il, takt­ur­inn of hægur og aðgerð­irnar hafa ekki reynst henta eins og ætl­unin stóð til. Ef rík­is­stjórnin er að veðja á að áfallið sé tíma­bundið eins og fjár­mála­ráð­herra hefur sagt, hvers vegna þá að draga aðgerðir á lang­inn? Hvers vegna ekki að bregð­ast strax við?

Miðað við þau gögn sem liggja fyrir er eðli­legt að stjórn­völd stígi stór skref til að draga úr högg­inu á heim­ili og fyr­ir­tæki og geri það sem þau geta til að draga úr óvissu. Í stuttu máli má segja sem svo að núna ætti ein­fald­lega að nálg­ast verk­efnið þannig að allar aðgerðir sem eru hvetj­andi um að verja og skapa störf séu af hinu góða. Það er ekki bara það mann­lega í stöð­unni heldur er það ábyrgt efna­hags­lega. Það á að auð­velda fólki að skapa sér tæki­færi og tekj­ur, lækka álögur á vinnu­veit­endur og skapa fyr­ir­tækjum hvata til að ráða fólk. End­ur­reisn atvinnu­lífs­ins er háð því að þeir sem misst hafa vinn­una fái sem fyrst aftur atvinnu­tæki­færi. Staða rík­is­sjóðs núna þolir að mun stærri skref séu tek­in. Og það getur reynst sam­fé­lag­inu og um leið rík­is­sjóði dýr­keypt að gera of lít­ið. Sam­staða og vel­ferð þjóð­ar­innar er í húfi. Atvinnu­leysi er sam­fé­lag­inu dýr­keypt og afleið­ingar margvís­leg­ar. Þess vegna þarf kraft­miklar aðgerðir strax til að stuðla að því fólk haldi störfum og hjálpi fyr­ir­tækjum að standa af sér tíma­bundið áfall.

Þegar við stóðum frammi fyrir fyrstu aðgerðum vegna kór­ón­u-far­ald­urs­ins hafði það allt um góðan árangur að segja að þjóðin stóð sam­an.  Þar hafði þýð­ingu að þre­menn­ing­arnar sýndu á spil­in, sögðu þjóð­inni hver staðan væri og hvers vegna þau lögðu til erf­iðar aðgerð­ir. Ákvarð­an­irnar hafa oft verið þung­bærar en almanna­varn­arteymið hefur lagt sig fram um að útskýra aðgerð­irnar og for­send­urnar að baki. Í gær sagði for­sæt­is­ráð­herra hins vegar í þing­sal að hún teldi áhuga­vert að heyra að það þyrfti að útskýra hlut­ina fyrir fólki. Af orðum hennar að dæma virð­ist sem hún telji það óþarfa. Stjórnin hefur verið óskýr í svörum og stundum ósam­stiga um aðgerð­ir. Hún opn­aði landið í sumar án þess að grein­ingar virt­ust liggja fyrir um áhrifin og það sama gerð­ist aftur þegar hún lok­aði land­inu. Þess vegna hafa mynd­ast and­stæðar fylk­ingar í land­inu, þegar sam­eig­in­legur óvinur er hin bráðsmitandi veira.

Auð­vitað er staðan sú að eng­inn kostur er auð­veld­ur, en þá skiptir hins vegar öllu að stjórn­völd séu skýr um aðgerðir og ástæður að baki. Og útskýri einmitt fyrir fólki hver nálg­unin er og hvers vegna ákveðnar aðgerðir í efna­hags­málum eru lagðar til en aðrar ekki. Til dæmis hvers vegna stjórnin seg­ist veðja á að kreppan sé tíma­bundin en ætlar samt ekki að bregð­ast við í sam­ræmi við það heldur hefur dreift aðgerðum sínum á næstu árin, sem gerir þær veik­ari, hæg­ari og ólík­legri til að hjálpa fólki í þeim vanda sem það á einmitt nún­a.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 4. september 2020