09 sep Taktu þátt í frjálslyndum valkosti í Garðabæ
Félag Viðreisnar í Garðabæ var stofnað í janúar 2018 af frjálslyndum Garðbæingum sem vildu vinna að réttlátu samfélagi og fjölbreyttum tækifærum. Garðabær er öflugt og fram sækið sveitarfélag og hér hefur Viðreisn í Garðabæ vaxið og dafnað með sífellt fleira virku félagsfólki.
Stofnun Garðabæjarlistans
Viðreisn í Garðabæ tók þátt í stofnun að sameiginlegu framboði undir nafni Garðabæjarlistans í síðustu sveitarstjórnarkosningum 2018. Það var einkum gert til að ná inn öflugum minnihluta sem er nauðsynlegur til að veita íhaldsömum meirihluta aðhald. Samstarf innan Garðabæjarlistans hefur gengið vel og hefur mikið áunnist í málefnum þeirra.
Garðabæjarlistinn hefur lagt fram margar góðar tillögur í bæjarstjórn og hafa þar ýmis mál náð fram að ganga. Ber þá helst að nefna tillögu Söru Daggar bæjarfulltrúa Garðabæjarlistans um sálfræðiþjónustu í grunnskólum sem samþykkt var á dögunum og nýverið var gerður samningur um þá þjónustu. Þessu framtaki Garðabæjarlistans og gæfu meirihlutans til að sjá mikilvægi þessa verkefnis ber að fagna. Vel gert á báða bóga.
Hvers konar Garðabæ viljum við?
Einungis tvö ár eru til kosninga og tíminn líður hratt. Við Garðbæingar verðum að leggjast undir feld og íhuga hvort að ekki sé kominn tími til að fá ferskan blæ inn í bæjarstjórn. Það getur ekki talist hollt að sami flokkurinn sé við völd í bæjarfélagi svo áratugum skipti og telur sig hafa rétt á því að vera við völd sama hvað á dynur. Það er ákveðinn hætta á því að þeir sem eru lengi í meirihluta verði varðhundar kerfisins í staðinn fyrir því að standa fyrir framþróun og bættum brag. Það er skylda okkar allra að horfa til framtíðar og hugsa um hvernig bæjarfélag við viljum búa í.
Annar valkostur verður að efla Viðreisn, frjálslyndan flokk sem boðar hægri hagstjórn og vinstri velferð. Flokkurinn leggur áherslu á að almannahagsmunir séu teknir fram yfir sérhagsmuni og hefur barist ötullega fyrir því, jafnt á þingi og í sveitarstjórnum. Viðreisn berst fyrir jafnrétti, frjálslyndi, umhverfis- og neytendavernd ásamt því að tryggja aðkomu Íslands í alþjóðasamstarfi. Þetta er á engan hátt tæmandi listi en gefur ágætis hugmynd um áherslur flokksins, bæði á sveitarstjórnarstiginu sem og í landspólitík.
Nýr í stjórn Viðreisnar í Garðabæ
Nú í byrjun sumars tók við ný stjórn Viðreisnar í Garðabæ. Sjálfur kom ég nýr í stjórn félagsins og tók við formennsku. Ég hlakka mikið til samstarfsins með íbúum í Garðabæ. Ég er fertugur þriggja barna faðir og eiginmaður, búsettur í Neðri- Lundumstarfa sem hjúkrunardeildarstjóri á skurðstofum Landspítalans í Fossvogi. Ég hef mikinn metnað fyrir því samfélagi sem við búum í, með frjálslyndi að leiðarljósi.
Það er von mín, og stjórnar Viðreisnar í Garðabæ, að sameiginlega náum við fram breytingum í okkar ágæta bæjarfélagi þar sem samvinna og virðing er höfð að leiðarljósi. Það skiptir okkur máli að heyra hvað brennur á bæjarbúum og hvet ég ykkur til að hafa samband við okkur með þau mál sem á ykkur brenna. Þau ykkar sem hafa áhuga á að taka þátt í starfi Viðreisnar í Garðabæ eru sérstaklega hvött til að hafa samband. Fólk með áhuga á að gera Garðabæ enn betra er alltaf velkomið í hópinn. Sendið okkur línu á gardabaer@vidreisn.is og hefjum samtalið.
Höfundur er formaður félags Viðreisnar í Garðabæ
Greinin birtist fyrst í Garðapóstinum 9. sepember 2020