Viðreisn efnahagsins

Viðreisn hefur lagt fram tillögur að markvissum aðgerðum til að bregðast við yfirstandandi samdrætti með afgerandi hætti. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og Jón Steindór Valdimarsson, fulltrúi Viðreisnar í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis kynntu tillögurnar á blaðamannafundi í Ármúlanum í morgun.

Í máli þeirra kom fram að útlit sé fyrir að niðursveiflan verði tímabundin og skammvinn. Því verður meginþungi aðgerða stjórnvalda að miðast við þann veruleika, að ráðist verði í afgerandi aðgerðir strax til að brúa bilið fyrir fólk og fyrirtæki í landinu sem ástandið bitnar mest á.

Þorgerður og Jón Steindór bentu á að það dugi lítið að dreifa aðgerðum á árin 2022 eða 2023. Meginmarkmið stjórnvalda sé að tryggja að hægt sé að viðhalda eftirspurn í landinu. Því sé knýjandi þörf á skýrum aðgerðum sem veita fyrirsjáanleika og öryggi næstu 12 mánuðina.

Höggið er ójafnt

Þingmenn Viðreisnar lögðu sérstaka áherslu á að það högg sem nú dynur yfir íslenskt efnahagslíf sé óvenjulegt að því leytinu til að ekki sé um gengisfellingu og verðbólgu að ræða sem bitnar á flestum landsmönnum, heldur sé höggið í þetta sinn ójafnt. Atvinnuleysi er bundið við ákveðnar atvinnugreinar til að mynda í ferðaþjónstu og á sviði skapandi greina, menningu og listum. Að sama skapi er höggið þyngra á ákveðnum landsvæðum.

Taka þurfi sérstaklega tillit til þessa og boða aðgerðir sem munu strax koma að gagni fyrir þennan gríðarstóra hóp sem nú finnur fyrir óöryggi um afkomu sína og framtíð. Endureisn atvinnulífsins sé háð því að þeir sem misst hafi vinnuna fái sem fyrst aftur atvinnutækifæri þar sem hæfileikar þeirra og þekking nýtist til verðmætasköpunar.

Tillögur Viðreisnar fyrir fólk og fyrirtæki

Tillögur Viðreisnar eru sjö talsins og miða að því að draga úr neikvæðum áhrifum samdráttarins á líf og lífsviðurværi almennings.

1. Opinberum framkvæmdum flýtt og fjárfestingar auknar

 • Ráðist sé strax í þær framkvæmdir sem tilbúnar eru og þeim flýtt sem þegar eru hafnar.
 • Áhersla þarf að vera á þjóðhagslega hagkvæmar framkvæmdir sem til lengri tíma skapa meiri tekjur en sem nemur kostnaði.
 • Borgarlína og aðrar framkvæmdir til að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu er eitt skýrasta dæmið um framkvæmdir sem uppfylla þessi skilyrði.
 • Kostnaður: 80 milljarðar

 

2. Auknir hvatar í loftslagsmálum

 • Loftslagsaðgerðir okkar þurfa núna að skapa tækifæri fyrir atvinnulífið.
 • Hraða þarf orkuskiptum og draga úr mengandi losun með jákvæðum fjárhagslegum hvötum.
 • Þannig er hægt að auka umsvif í atvinnulífinu samhliða því að búa að betri framtíð fyrir þjóðina.
 • Einnig þarf stuðning við rannsóknir og nýsköpun á sviði grænnar tækni.
 • Kostnaður: 5 milljarðar

 

3. Tímabundin úrræði fyrir fólk í atvinnuleit

 • Hagkvæmast fyrir þjóðina er að skapa örugga afkomu fyrir fólk í atvinnuleit sem getur verið tilbúið og viljugt til að stökkva á tækifærin og auka við sig þekkingu eða færni.
 • Eykur á fyrirsjáanleika og býr til öryggisnet.
 • Það getum við gert með því að veita meira svigrúm til tekjuöflunar á meðan fólk er á atvinnuleysisbótum en einnig að framlengja tímabundið tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Að auki leggur Viðreisn til að fólk í atvinnuleit fái bótaauka tímabundið til að brúa bilið.
 • Kostnaður: 10 milljarðar

 

4. Fjárfesting í lýðheilsu þjóðarinnar

 • Langvarandi atvinnuleysi, tekjutap, kvíði og óvissa eru líkleg til að hafa langvarandi áhrif á líkamlega og andlega heilsu fólks, sérstaklega ef ekki er brugðist strax við.
 • Fjármagna þarf lög um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónstu sem allir flokkar studdu í vor. Það er forvirk aðgerð sem skiptir máli núna.
 • Samhliða því þarf að tryggja strax viðbótarfjármagn inn í félagsþjónustu sveitarfélaganna. Við höfum ekki efni á því að láta þessi vandamál óskipt.
 • Kostnaður: 4 milljarðar

 

5. og 6. Létta álögur á fyrirtækjum og verja störf

 • Við þurfum með öllum ráðum að ýta undir atvinnusköpun.
 • Tímabundnar aðgerðir sem auðvelda fyrirtækjum að ráða til sín starfsfólk og viðhalda störfum flýta viðspyrnu okkar gegn samdrættinum. Til dæmis með beinum stuðningi til fyrirtækja.
 • Það að hjálpa fyrirtækjum, sérstaklega litlum og meðalstórum, að standa af sér höggið með lækkun gjalda á borð við tryggingargjald minnkar líkurnar á stórfelldum fjöldagjaldþrotum.
 • Samhliða atvinnusköpun þurfum við að verja þau störf sem þegar eru til staðar.
 • Tímabundnir beinir styrkir til atvinnurekenda sem flestir búa við verulegan tekjumissi, hjálpar þeim að brúa bilið og viðhalda starfsemi og störfum.
 • Kostnaður: 20 milljarðar

 

7. Nýsköpun til lengri tíma

 • Fjárfestingar í nýsköpun til lengri tíma auka stöðugleika og fyrirsjáanleika í hagkerfinu.
 • Það tekur tíma að koma sprotum og nýsköpun af stað og mikil þörf er á þolinmóðu fjármagni. Styrkir til nýsköpunar þurfa að vera til 5 ára hið minnsta.

 

Kostnaðarmat aðgerðanna er 123 milljarðar króna. Þorgerður og Jón Steindór bentu á að þær séu þjóðhagslega hagkvæmar og skila sér til baka í auknum hagvexti. Það sé í takti við það sem Fjármálaráð og ýmsir sérfræðingar á sviði hagfræðinnar hafi boðað. Það sé í reynd mun dýrara fyrir þjóðina að ríkisstjórnin dragi lappirnar og veiti ekki næga viðspyrnu núna þegar samdrátturinn er mestur. Enn fremur lögðu þau áherslu á að það yrði enn verra ef ríkisstjórnin dreifir fjárfestingaþörfinni yfir lengri tíma og með umfangsmiklum framkvæmdir eftir að efnahagslífið hefur tekið við sér. Tækifærið sé núna.

Þorgerður Katrín sagði að lokum að Viðreisn hefði stundað öðruvísi pólitík í vetur og stutt allar góðar tillögur sem kæmu frá stjórninni. Hún brýndi jafnframt meirihlutann að gera slíkt hið sama; núna sé kominn tími til að hlusta á tillögur minnihlutans og taka mark á þeim.