Af hverju ójafnt atkvæðavægi?

Þegar talað er fyrir jöfnun atkvæðavægis til kosninga er viðkvæðið gjarnan: „Á nú að taka þetta frá landsbyggðinni líka?“ Og það er ekki nema von að spurt sé. Nær allri stjórnsýslu og umgjörð hennar hefur verið komið fyrir á suðvesturhorni landsins. Á sama tíma hefur grunnþjónusta í heilbrigðiskerfinu dregist saman á landsbyggðinni. Það sama má segja um verslun og þjónustu, allt frá saumastofum til banka. Þetta hefur átt sér stað þrátt fyrir misskiptingu atkvæða og því spyr ég á móti: Hvað hefur ójafna atkvæðavægið gert til að bæta þetta?

Þessi atriði sem ég nefni hér eru allt verðug viðfangsefni, sem hafa verið látin ósnert of lengi. Við eigum að nýta fjarvinnutæknina til að tryggja að störf í stjórnsýslunni séu úti um allt land. Við eigum líka að nýta tæknina til að tryggja að aðgengi allra að opinberri þjónustu sé jafnt. Við þurfum að færa aukið lýðræðislegt vald til sveitarstjórnarstigsins og fjármagn í samræmi við það. Síðast en ekki síst verðum við að tryggja að arður þjóðarinnar af fiskveiðiauðlindinni sé nýttur til uppbyggingar í hverri heimabyggð – og sérstaklega fyrirsjáanleg aukning arðsins sem fæst með því að færa kvótann á markað. Fyrir því höfum við í Viðreisn barist frá upphafi.

Þingmenn eiga að líta á sig sem fulltrúa allrar þjóðarinnar og leiðin að því marki er að gera atkvæðavægi landsmanna jafnt. Við eigum ekki að veita þeirri umræðu hljómgrunn að ójafna atkvæðavægið sé til þess að bæta með einhverjum hætti skort á þjónustu á landsbyggðinni. Ég þekki engan sem myndi vilja auka atkvæðavægi sitt í kosningum gegn því að fá lakari heilbrigðisþjónustu. Þetta eru með öllu ótengdir þættir. Við eigum bæði að jafna atkvæði allra landsmanna og auka þjónustu og öryggi þeirra sem búa allt landið um kring. Þetta eru lykilatriði þegar kemur að raunverulegu frelsi fólks í lýðræðissamfélagi. Hagsmunum landsmanna, óháð búsetu, er best borgið með kerfi sem sameinar okkur frekar en sundrar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16. október 2020