09 okt Biðlistar í nefnd?
Ríkisstjórn sem velur orð umfram aðgerðir er eðlilega hrifin af nefndum. Þetta fékkst rækilega staðfest í vikunni þegar Viðreisn vakti athygli á fjölda nefnda sem komið hefur verið á fót frá því núverandi ríkisstjórn var mynduð í lok nóvember árið 2017. Í mars á þessu ári voru þær orðnar 248 talsins.
Kannski er biðlistavandinn fastur í einni af þessum nefndum. í maí síðastliðnum voru rúmlega 4.000 manns á biðlistum eftir aðgerðum. Flestir bíða eftir liðskiptum eða augnsteinaskiptum, en aðgerðalistinn er langur og fjölbreyttur. Allt á þetta fólk það sameiginlegt að biðin dregur verulega úr lífsgæðum þess. Núna bíða hátt í 5.000 manns.
Landspítalinn hefur í mörg horn að líta nú sem aldrei fyrr. COVID-faraldurinn veldur slíku álagi á starfsfólk spítalans að það er með hreinum ólíkindum hversu vel þau standa vaktina. Stjórnendur og starfsfólk þar eiga mikið hrós skilið.
Þjóðarsjúkrahúsið hefur ekki undan og biðlistar lengjast. Samt er ekki leitað annað. Af því að það hentar ekki pólitískri stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég hef heimildir fyrir því að í síðustu viku hafi verið framkvæmdar fjórar liðskiptaaðgerðir á Landspítala. Á sama tíma framkvæmdi hin einkarekna Klíník tólf slíkar aðgerðir. Til viðbótar við þennan þrefalda mun í fjölda aðgerða, þá liggur stóri munurinn í því að aðgerðirnar á Landspítalanum eru greiddar af ríkissjóði en aðgerðir á Klíníkinni þarf fólk að greiða úr eigin vasa.
Með því að standa vörð um þetta ástand segjast stjórnvöld vera að leggja áherslu á opinbera heilbrigðiskerfið. Það ríkir enginn ágreiningur um að við viljum hafa hér opinbert kerfi þar sem landsmenn allir fái notið heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Staðreyndin er sú að með því að semja um tilteknar aðgerðir við Klíníkina og aðra til þess bærra aðila, þá eflist opinbera heilbrigðiskerfið okkar. Framkvæmir fleiri aðgerðir. Þjónar fleira fólki.
Það er kominn tími til að pólitíkin fari að sjá skóginn fyrir trjánum hér. Það getur ekki verið að ríkisstjórnin vilji gera bið fólks eftir heilbrigðisþjónustu að einhvers konar lífsstíl.