Ég geri það sem ég vil

Benedikt Jóhannesson

Nokkrir vinir mínir segjast vera frelsisunnendur. Kannski mætti kalla þá fríhyggjumenn. Þeim finnst ríkið sífellt vera að skipta sér af því sem því kemur ekki við. Þeir eru nokkrir, en köllum þá einu nafni Brynjar til þess að blekkja þá.

Aumingja Brynjar. Áratugum saman hefur verið saumað að honum.

Upp úr 1980 voru bílbelti komin í alla bíla og leitt í lög að þau skyldu ávallt spennt, enda verið sýnt fram á að þau minnkuðu hættuna á alvarlegum slysum. Brynjari fannst þau bókstaflega hefta sig og sagði: „Hverjum kemur það við nema mér hvort ég nota þessar fjárans ólar?“ Dýr maður eins og Brynjar gæti reyndar kostað tugi milljóna í bætur ef hann keyrði sig og bílinn sinn í klessu. Þjóðfélagið missti þá líka starfskrafta nýts þegns (jú, jú, víst er hann það). „En helvítis tryggingarnar myndu borga, nóg kosta þær.“

Árið 1996 var þungt í Brynjari. Nú var farið að fylgjast með því að allir greiddu 10% af launum sínum í lífeyrissjóð. Háskólamenntaður maðurinn vissi auðvitað vel að þetta hafði lengi verið lögbundið, en hann hafði enga trú á þessum lífeyrissjóðum. „Ef ég vil spara á annað borð, þá á ég að ráða því hve mikið og hvernig ég geri það. Auðvitað er það bara mitt mál hvað ég hef í ellinni.“

Heildsalar og sjálfstæðir atvinnurekendur greiddu margir aldrei krónu í lífeyrissjóð og undrast nú mjög nísku samfélagsins þegar þeir reyna að framfleyta sér á  fullum bótum TR. Á meðan fær Sólveig sem var þvottakona á lágmarkstaxta skertar bætur af því að hún greiddi alltaf í lífeyrissjóð. Hennar mál, ekki Brynjars.

Á 21. öldinni var enn þrengt að Brynjari okkar sem hafði reykt sígarettur frá því á skólaárunum og fékk sér öðru hvoru vindil á skrifstofunni. Kannski kom líka fyrir að í skjalaskápnum var koníakslögg sem dreypt var á, en það skiptir ekki máli í þessari sögu. Allt í einu kom tilkynning frá húseigandanum um að héðan í frá yrði allt húsið reyklaust.

Okkar manni var öllum lokið. „Ég reyki eins og mér sýnist, þar sem mér sýnist.“ Þegar Brynjar flutti loks úr skrifstofunni var hann löngu búinn að flæma alla aðra af hæðinni. Enginn vildi leigja í námunda við stækjuna. Vindlalyktin finnst enn af jakkafötunum hans.

Svona er Brynjar stöðugt í vörn. Fyrst var það Stóri bróðir, svo Djúpríkið og síðast Góða fólkið sem ofsækja frjálshugann.

Þessa dagana er enn þrengt að Brynjari. Frelsisunnandanum er bannað að fara á krána sína. Enn síður má hann stunda hnefaleika í Kópavoginum, sem vakti satt að segja engan áhuga fyrr en það var bannað. Honum er meira að segja skipað að vera með grímu á almannafæri (sem þeir sem til þekkja telja raunar til prýði).

Hvað kemur honum það við að einhver smitist og jafnvel deyi úr slæmri flensu? Hefði þetta fólk ekki dáið hvort sem er?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. október 2020