Forsendubresturinn og krónan

Þorsteinn Pálsson

Samtök atvinnulífsins komust að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að minni þjóðarframleiðsla vegna kórónaveirukreppunnar hefði kippt stoðum undan rúmlega ársgömlum kjarasamningum, sem gilda eiga til 2022.

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru þau að sýna strax nokkrar framhaldsráðstafanir, sem hún var með á prjónunum og ráðgerði að kynna eftir nokkra daga. Þær breyta þó ekki þeim forsendubresti, sem Samtök atvinnulífsins vísuðu til. Eigi að síður féllu þau frá áformum um að segja samningum upp.

Forsendur og form

Kjarasamningarnir í fyrra stefndu í óefni fram að falli Wow. Niðurstaðan var nær veruleikanum, en byggði samt á veikum efnahagslegum forsendum. Kórónaveirukreppan breytti þeim síðan í grundvallaratriðum. En enginn formlegur fyrirvari var gerður vegna hugsanlegs tekjufalls þjóðarbúsins.

Á endanum er það þó alltaf verðmætasköpunin sem stendur undir lífskjörum, en ekki formsatriðin.

Lækkun vaxta var hins vegar skrifuð sem formleg forsenda inn í samningana. En lækkuðu vextir í kjölfarið vegna þeirra eða bættrar hagstjórnar?

Vextir og samdráttur

Þegar samningarnir voru gerðir var samdráttur í þjóðarbúskapnum þegar byrjaður. Vaxtalækkunin var því vegna samdráttar, sem þegar var orðinn og sjá mátti fyrir að yrði enn meiri.

Fyrsta vaxtalækkunin var þannig afleiðing af því að ekki tókst að varðveita hagvöxtinn. Kórónaveirukreppan keyrði vexti síðan enn lengra niður. Það voru ekki mistök ríkisstjórnar heldur ytra áfall.

Vaxtalækkunin var þannig í báðum tilvikum eðlilegt andsvar við samdrætti, en hafði lítið með kjarasamninga að gera. Og enn síður lágu rætur hennar í bættri stjórn peningamála eða ríkisfjármála.

Séríslenskar búsifjar

Kórónaveirukreppan hefur valdið álíka miklum samdrætti í þjóðarframleiðslu hjá okkur og öðrum þjóðum. Að sama skapi hefur atvinnuleysi vaxið hlutfallslega með svipuðum hætti og meðal helstu viðskiptaþjóða.

En hér hefur þrennt gerst, sem aðrar þjóðir þurfa ekki að þola:

Í fyrsta lagi hrundi gengi krónunnar um 20 prósent. Gjaldmiðlar helstu viðskiptaþjóða hafa á hinn bóginn verið nokkuð stöðugir.

Í öðru lagi hefur verðbólga meira en tvöfaldast á þessu ári og er nú komin verulega yfir viðmiðunarmörk Seðlabankans og fer vaxandi, á meðan hún er mun stöðugri á öðrum Norðurlöndum og í Evrópu.

Í þriðja lagi gerðu stjórnvöld tilraun til að halda gengi krónunnar uppi með því að setja lífeyrissparnað almennings í höft. Þessi óábyrga tilraun mistókst hrapallega. En fyrir vikið bítur kreppan lífeyrisþega meira hér en í grannlöndum.

Þannig veldur krónan verulegum búsifjum, umfram það sem aðrar þjóðir þurfa að þola vegna kórónaveirukreppunnar.

Rökin fyrir krónunni falla á ný

Eina röksemdin fyrir því að halda í krónuna er sú að sjálfkrafa lækkun hennar vegna heimatilbúinna mistaka eða ytri áfalla styrki útflutning og komi í veg fyrir atvinnuleysi.

Veruleikinn blasir nú við. Þrátt fyrir hrun krónunnar er atvinnuleysi það sama hér og hjá þjóðum með stöðugan gjaldmiðil. Eins var þetta í fjármálakreppunni. Röksemdin fellur enn á ný.

Útflutningur hefur ekki aukist þrátt fyrir hrun krónunnar, vegna þess að stærsti hluti vöruútflutnings byggir á fullnýttum auðlindum. Gengislækkun fjölgar ekki fiskum í sjónum. Hún fjölgar heldur ekki virkjunarkostum.

Eftir hrun krónunnar í fjármálakreppunni var útflutningshagvöxtur til að mynda lengur að taka við sér hér en á Írlandi, sem notar evru.

Krónan veldur misskiptingu

Gengishrunið nú hefur sem sagt ekki bætt hag þjóðarinnar í heild með meiri verðmætasköpun fremur en endranær. En það hefur eftir sem áður skilað útflutningsfyrirtækjum fleiri krónum í kassann.

Gengishagnaður útflutningsfyrirtækja er forsendubati, sem stendur vel undir umsömdum launahækkunum þeirra. En ferðaþjónustan nýtur ekki þeirrar forgjafar núna og heldur ekki fyrirtæki sem nota einungis íslenskar krónur.

Þannig býr krónuhagkerfið til meiri misskiptingu innbyrðis í atvinnulífinu en fyrirtæki samkeppnislandanna þurfa að þola.

Þetta er grundvallarvandinn í þjóðarbúskapnum. Og meðan stjórnvöld vilja ekki taka á honum verður norræna vinnumarkaðsmódelið bara draumsýn.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. október 2020