08 okt Kennum frumkvæði
Þegar ég rifja upp skólagöngu mína man ég hvað kennslan einkenndist oft af því að læra gamlan fróðleik utanbókar. Auðvitað er nauðsynlegt að allir læri að lesa, skrifa og reikna en þurftum við endilega að kunna skil á viðtengingarhætti þátíðar og þáskildagatíð svo dæmi séu tekin? Ég man enn hvaða ár renna í Norður-Íshafið og nöfn flestra biskupa á Íslandi. Í dag finnum við svörin á Google. Námið í Versló reyndist að vísu góður grunnur fyrir verkfræðinámið og þar lærði ég vélritun sem ég nota núna við gerð þessara bakþanka.
Börn sem eru að byrja í grunnskóla í dag koma inn á vinnumarkaðinn eftir árið 2035. Ef við ætlum að undirbúa æsku landsins fyrir breytta heimsmynd þarf að kenna henni að nálgast upplýsingar á netinu. Kenna þarf gagnrýna hugsun í auknum mæli sem og áræði og aðlögunarhæfni á tímum hraðra breytinga. Að auki ætti að kenna æskunni að leysa vandamál og verkefni í teymum. Einnig ætti að stuðla að auknu frumkvæði nemenda og forvitni, skapandi hugsun og lífsleikni. Ég tek fram að margir skólar eru einmitt að kenna ofangreind fög í dag og eiga þeir þökk skilið.
Ég legg til að við fjölgum valfögum og leyfum námsfólki að ráða því meira sjálfu hvað það lærir, þannig að hæfileikar hvers nemanda nýtist. Leyfum afburðanemendum að njóta sín betur og styðjum við þá sem þurfa aðstoð. Við getum horft til reynslu Finna í þessum efnum sem hafa fækkað skyldufögum en láta nemendur vinna meira að þemaverkefnum. Í Finnlandi geta skólar mótað sína námsskrá að mestu sjálfir enda eru námsmenn þar með einn besta námsárangur í heiminum.
Valfrelsið er mikilvægara en utanbókarlærdómur að mínu mati. Eða manst þú hvað höfuðborg Sómalíu heitir? Gúglaðu það!