14 okt Ónýtur lottómiði
„Við erum á leið aftur til Kaliforníu í vikunni. Dvalarleyfi okkar er útrunnið og ekki tókst að fá það framlengt í tæka tíð hjá Útlendingastofnun, sennilega vegna anna þar á bæ.”
Þetta er tilvitnun í kveðju frá bandarískum sérfræðingi sem nú er horfinn til síns heima eftir að hafa dvalið hér á landi í nokkra mánuði ásamt fjölskyldu sinni. Hann tók þá ákvörðun að flytja til Íslands og sinna störfum sínum í heimalandi sínu frá Íslandi með hjálp tækninnar, sem og eiginkona hans. Sérþekking hans og sambönd nýttust einnig íslenskum tækni- og nýsköpunarfyrirtækjum. Börn hans voru komin í íslenska skóla og fjölskyldan undi sér vel – þar til kerfið sagði nei.
Þetta er dapurlegt dæmi um að við torveldum fólki sem hingað vill koma til þess að vinna hér á landi eða sinna störfum sínum erlendis frá Íslandi að setjast hér að.
Nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, sagði í grein í Morgunblaðinu 17. maí sl:
„Að búa á Íslandi er að mínu mati lottóvinningur, og fyrir sérfræðinga í alþjóðlegum tæknifyrirtækjum getum við boðið upp á mikil lífsgæði. Frábært heilbrigðiskerfi, ótrúlega náttúru, virkt menningar- líf, gott, aðgengilegt og gjaldfrjálst skólakerfi, frið og jöfnuð. Á́ sama tíma hefur íslenskt samfélag almennt, og nýsköpunarumhverfið sérstaklega, mjög gott af því að fleiri erlendir sérfræðingar með sina reynslu, tengingar og þekkingu komi og starfi héðan. Ef við gerum þeim auðvelt fyrir að setjast hér að græðum við öll. Vinna sem hefur það að markmiði er hafin.”
Undir þessi orð ráðherrans er sannarlega hægt að taka. Hér vantar hins vegar mikið upp á að tækifærið sé gripið á lofti. Um það vitnar dæmið hér að framan. Það er ekki til þess fallið að freista útlendinga til að setjast að hér á landi ef raunin er sú að hér sé enn búið svo um hnúta að þetta sé þeim ógerlegt.
Hér þarf að ganga hreint til verks, breyta þeim reglum sem breyta þarf og gefa Útlendingastofnun skýr fyrirmæli um að mál af þessu tagi fái hraða málsmeðferð. Verði þetta ekki gert er tómt mál að tala um að það sé lottóvinningur að eiga þess kost að búa á Íslandi.
Ríkisstjórninni ætti að vera í lófa lagið að kippa þessu í lag strax og það á hún að gera.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.
Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 14. október 2020