Bak­slag í jafn­réttis­bar­áttunni?

Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir

Sem móðir þriggja barna er ég í hópi for­eldra sem upp­lifa aukið álag heima á tímum far­aldursins. Allir eru meira heima, skóli ýmist í fjar­námi eða skóla­dagurinn skertur og allar tóm­stundir hættar. Á sama tíma situr mamma á fjar­fundum í eld­húsinu. Vinna við að skipu­leggja dag­legan veru­leika barna er minni, skut­lið farið og allt utan­að­komandi álag er léttara en verk­efnin heima eru þyngri. Sótt­varna­yfir­völd hafa lagt sig fram um að skólarnir fái að starfa og fyrir það er ég, eins og flestir for­eldrar, þakk­lát. Það bætir líðan barna og auð­veldar líf for­eldra ungra barna. Allar mælingar á hinu ó­launaða starfi heima segja okkur að enn er það svo að f leiri verk á heimilinu eru unnin af konum. Þetta á vita­skuld ekki við um öll heimili og ég trúi því að hér hafi orðið góðar breytingar. En þessi staða er hluti af því bak­slagi sem teikn eru á lofti um að hafi orðið.

Hættir of­beldi eftir CO­VID?

Í gær tók ég þátt í pall­borði, inni í eld­húsi, á ráð­stefnunni Reykjavík Global Forum – Wo­men Lea­ders þar sem um­fjöllunar­efnið var á­hrif CO­VID-19 á jafn­réttis­bar­áttuna. Stutta svarið er að staðan vegna heims­far­aldursins hefur bein og ó­bein á­hrif á stöðu kvenna. Staða kvenna er vita­skuld ólík og við­kvæmir hópar standa veikar en aðrir. Efna­hags­kreppan er til dæmis talin verða þess valdandi að 47 milljón fleiri konur muni enda í sára­fá­tækt fyrir 2021.

Áður en ég tók sæti á þingi vann ég sem sak­sóknari hjá ríkis­sak­sóknara. Þar var ég aðal­lega með kyn­ferðis­brota­mál til með­ferðar. Í starfinu varð ég með­vituð um að heimilið er sumum konum enginn griða­staður, heldur bein­línis hættu­staður. Og konur verða núna fyrir meira of beldi ein­fald­lega vegna þess að þær eru meira heima. Í um­ræðunni er þetta of beldi svo sam­tvinnað CO­VID-19 að það er hætta á að ein­hverjir haldi að eftir heims­far­aldurinn muni þessi vandi bara hverfa. Ofbeldi inni á heimilum varð ekki til vegna CO­VID-19 heldur er að­eins að aukast vegna á­standsins. Er gefið að maður sem beitir konu sína of­beldi muni hætta við það eitt að það kemst betri regla á vinnuna hans? Ég hef ekki sterka sann­færingu fyrir því.

Ís­land, best í heimi?

Ís­land trónir efst á lista Al­þjóða­efna­hags­ráðsins, World Economic Forum, um kynja­jafn­rétti. Það höfum við gert í rúman ára­tug. Af því getum við verið stolt. Þessi staða getur hins vegar leitt til að ein­hverjir trúi því að við séum komin í höfn. Ég var í hópi þeirra sem táruðust við að sjá Kamala Har­ris á sviði sem væntan­legan vara­for­seta Banda­ríkjanna. Ís­lenskir heims­meistarar í jafn­rétti hafa samt bara upp­lifað konu sem for­seta einu sinni og for­sætis­ráð­herra tvisvar. Enn hefur það aldrei gerst að hlut­fall kynja sé jafnt á þingi. Er það til­viljun ein sem veldur því að karlar hafa alltaf í sögu Al­þingis verið í meiri­hluta? Það hafa ekki setið fleiri konur en þrjár í Hæsta­rétti á meðan dómarar þar voru níu. Oftast hafa þær verið færri. For­stjórar í fyrir­tækjum eru í miklum meiri­hluta karl­menn, þótt við séum með lög um kynja­kvóta í stjórnum. Samt komast konur ekki á toppinn.

Staðan á Ís­landi er góð í saman­burði við önnur ríki. Þessar tölur segja okkur samt að jafn­rétti hefur ekki náðst. Og þessi árangur náðist ekki bara með tímanum. Tíminn leiddi okkur ekki hingað. Biðin ekki heldur. Þessum breytingum var náð í gegn með bar­áttu. Öllum þessum skrefum var mætt með and­stöðu. Við höfum sett fram­sækin lög um fæðingar­or­lof, lög um jafn­launa­vottun og lög um kynja­kvóta í stjórnum svo eitt­hvað sé nefnt. Við erum með­vituð um þýðingu þess að dag­vistun sé að­gengi­leg. Stjórn­mála­flokkar sem vilja láta taka sig al­var­lega gæta að kynja­hlut­föllum. Og ég lít á sam­þykkis­regluna sem grund­vallar­skila­boð um kyn­frelsi kvenna.

Stór skref strax

Stjórn­völd ein­hverra ríkja sæta nú færis og ráðast að konum og réttindum þeirra. Það eru kjör­að­stæður til að veikja mann­réttindi þegar at­hyglin er á heims­far­aldri og þungri efna­hags­kreppu. Konur í Pól­landi finna hins vegar að þær eru ekki einar í bar­áttunni. Við stöndum með þeim. En hvað ættu stjórn­mála­menn að gera þegar við­vörunar­ljós blikka á heims­vísu hvað varðar stöðu kvenna? Í hinu nor­ræna sam­hengi ættum við ein­fald­lega að byrja á því að vakna. Öll á­hersla er eðli­lega á efna­hags­að­gerðum en það má ekki gleyma hver á­hrif jafn­réttis eru á sam­keppnis­stöðu og vaxtar­mögu­leika. Ríkis­stjórnir víða um Evrópu hafa boðað grænar á­herslur í efna­hags­að­gerðum. Jafn­rétti hefur já­kvæð á­hrif á hag­kerfið, á lög og rétt og sam­fé­lagið allt. Jafn­rétti er sam­ofið efna­hags­legri við­reisn. Hluti af því að koma sterk út úr kreppunni er að við tryggjum jafn­réttis­málin með í efna­hags­að­gerðunum. Þar þurfum við að taka stór skref strax.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. nóvember 2020