04 nóv Erindi um samskipti
Einelti er dauðans alvara og hefur verið mikið til umræðu í Garðabæ að undanförnu eins og við öll þekkjum. Þegar svo alvarlegur samskiptavandi, sem einelti er, kemur upp er ljóst að það þarf að leggja betur við hlustir, rýna og endurmeta það umhverfi sem við búum börnum okkar og ungmennum. Hvort sem það er innan skólanna, íþróttahreyfingarinnar eða annarar tómstundaiðju. Einelti er fyrst og fremst afleiðing samskiptavanda sem hefur fengið að þróast í ákveðna átt svo að illa fer.
Framúrskarandi skólar geta aldrei talist framúrskarandi ef líðan barna og ungmenna er ekki sett í fyrsta sæti, hlúð sé að samskiptum og unnið með þau á uppbyggilegan og markvissan hátt á öllum stigum skólakerfisins og öðrum sem starfa með börnum. Því skiptir máli að við stöldrum við og rýnum ferla og aðgerðarplön sem allar stofnanir samfélagsins leggja til grundvallar í starfi með börnum og ungmennum.
Samskiptavandi er þess eðlis að oft er erfitt að reiða hendur á hvað á sér stað. Því þurfum við ávallt að hafa í huga hvernig við getum, í verkferlum okkar, gert betur í dag en í gær. Við þurfum að efla forvarnir, efla samskipti, rýna samskipti barna og ungmenna og grípa inn í þegar þarf en láta þau ekki afskiptalaus þó saklaus sýnist. Einelti brýst út vegna alvarlegra bresta í samskiptum og það er ekki eitthvað sem á sér stað á einni nóttu.
Skólar Garðabæjar byggja á góðum grunni. Grunni sem þarf að hlúa að líkt og öllu sem við viljum að vaxi og dafni og mæti fjölbreytileika samfélagsins í dag og þeim áskorunum sem eru margbreytilegar og verða flóknari samhliða þeim breytingum sem eiga sér stað í ört vaxandi samfélagi.
Valfrelsið sem boðið er upp á í Garðabæ þar sem fjölskyldur geta valið skóla óháð því hverfi sem búið er í er til mikillar fyrirmyndar. En þó valfrelsið sé mikilvægt og eflir skólasamfélagið, þarf líka að vera vakandi yfir því þegar valfrelsið er nýtt til að flýja óþægilegar aðstæður. Valfrelsið, eitt og sér, kemur ekki í veg fyrir vanlíðan. Það er heldur ekki rétt úrræði til að bregðast við samskiptavanda í þeirri von að vandamálið hverfi í næsta skóla.
Ég hef þegar óskað eftir að leik- og grunnskólanefndir Garðabæjar fundi saman, þar sem þessir þættir, verkferlar, úrræði og aðgerðarplön leik- og grunnskólanna verða rýndir. Það er okkar sameiginlega markmið að öllum börnum og ungmennum farnist vel. Uppvaxtarárin eru óendanlega dýrmæt og að þeim þarf að hlúa þannig að öll börn njóti óháð þeim hlutverkum sem þau taka í samskiptum sínum.
Höfundur er oddviti og fulltrúi Garðabæjarlistans í skólanefnd
Greinin birtist fyrst í Garðapóstinum 4. nóvember 2020