Hver er heildar­myndin?

Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir

Í gær voru sagðar fréttir af því að íslensk stjórnvöld hefðu fengið 18 mánaða frest til úrbóta um raunverulegar aðgerðir gegn spillingu. GRECO (The Group of States against Corruption), samtök ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu, hafa farið yfir stöðuna, lagt fram tillögur og telja nú að tillögunum hafi ekki verið mætt í samræmi við þörf. GRECO hefur lagt sérstaklega áherslu á að stjórnvöld kynni þessar niðurstöður fyrir almenningi.

Mánuður er síðan Ísland slapp af gráum lista FATF, alþjóðlegs fjármálaaðgerðahóps ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Það var því miður engin hending að Ísland endaði á þeim lista, því lengi hafði legið fyrir að aðgerðir gegn peningaþvætti væru ófullnægjandi. Að lenda á slíkum lista er ekki bara álitshnekkir heldur getur hæglega haft í för með sér neikvæð áhrif á fjármálastarfsemi.

Nú þegar fyrir liggur að aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn spillingu eru svo veikburða að hún fær 18 mánaða frest til að taka prófið aftur skiptir máli að geta séð heildarmyndina. Það er ekki lengra síðan en í síðustu viku sem Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, sagði á opnum fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að embættið hefði ekki burði til að sinna frumkvæðisathugunum á stjórnsýslunni. Vegna manneklu og verkefnaþunga getur embættið ekki sinnt því að kanna að eigin frumkvæði framkvæmd og lagastoð innan stjórnsýslunnar. Umboðsmaður var með orðum sínum að lýsa því að embættið getur ekki sinnt verkefnum sínum vegna þess að stjórnvöld fjársvelta embættið. Aðhaldshlutverk Umboðsmanns er mikilvægt. Frumkvæði er gríðarlega þýðingarmikið í því sambandi. Ef embættið getur ekki tekið upp mál að eigin frumkvæði er trúverðugleiki embættisins í hættu. Það er trúverðugleiki stjórnvalda sömuleiðis.

Það hefur mikla þýðingu að næstu niðurstöður verði þær að tilmælum GRECO hafi verið mætt. Innlend viðvörunarljós frá Umboðsmanni eru hins vegar því miður í ágætu samræmi við alþjóðlegar úttektir. Það birtir vonda mynd.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 17. nóvember 2020