Innan þjónustusvæðis

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir
Við sem búum á höfuðborg­ar­svæðinu hugs­um ekki bara um það sem eitt at­vinnusvæði, held­ur í raun sem eitt bú­setu- og þjón­ustu­svæði. Á höfuðborg­ar­svæðinu er fjöl­breytt at­vinnu­líf, menning­ar­líf og mann­líf sem við öll njót­um, þvert á hreppa­mörk. Við nýt­um líka úti­vist­ar­svæðin sam­an. Reyk­vík­ing­ar eða Garðbæ­ing­ar stoppa ekki við bæj­ar­mörk­in í Heiðmörk og segja „hingað og ekki lengra“.
Sveit­ar­fé­lög­in sem hér eru þurfa að taka stærri skref til þess að koma til móts við þenn­an veru­leika. Það eru mörg sókn­ar­færi í slíku sam­tali, bæði fyr­ir íbúa og at­vinnu­lífið.
Á aðal­fundi Sam­bands sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu í gær lagði ég til að byrjað yrði á að skoða hvernig sveitar­fé­lög­in geti aukið þjón­ustu við íbúa og opnað þau gæði sem við þegar bjóðum fyr­ir fleir­um með því að bjóða upp á aðgangskort, þvert á sveit­ar­fé­lög, fyr­ir sund­laug­ar, menn­ing­ar­hús og bóka­söfn.

Höfuðborg­ar­kort

Höfuðborg­ar­bú­ar njóta nú þegar menn­ing­ar og sund­laug­anna þvert á sveit­ar­fé­lög og geta fengið bæk­ur lánaðar á milli bóka­safna í gegn­um bókasafna­kerfið Leit­ir. En þeim er ekki gert auðvelt fyrir.
Ég hef trú á að fleiri myndu kaupa aðgangskort sem myndi gilda fyr­ir allt höfuðborgar­svæðið, frek­ar en ein­ung­is í einu sveit­ar­fé­lagi. Með slíkri sam­vinnu erum við aug­sýni­lega að auka þau gæði sem í kort­un­um fel­ast.
Fyr­ir svona sam­vinnu þarf ekki að ganga mjög langt. Það þarf ekki að sam­eina öll sveit­ar­fé­lög­in í eitt risa­sveit­ar­fé­lag, þar sem hátt í tveir þriðju íbúa lands­ins myndu búa. Það þarf ekki held­ur að stofna enn eitt byggðasam­lagið með stjórn­um og flók­inni stjórn­sýslu. Rekst­ur sund­laug­anna, menning­ar­hús­anna og bóka­safn­anna yrði enn í hönd­um hvers sveit­ar­fé­lags fyr­ir sig.

Það eru for­dæmi fyr­ir sund­laug­ar

Við höf­um for­dæmi fyr­ir sam­starfi á öll­um þessum sviðum. Mörg sveit­ar­fé­lög hafa t.a.m. gert samn­ing við eina lík­ams­rækt­ar­stöð og hafa kort­haf­ar henn­ar einnig aðgang að sund­laug­um, þvert á sveit­ar­fé­lög. Ef hægt að gera slík­an samning við einkaaðila, þá hljóta sveit­ar­fé­lög­in líka að geta gert sam­starfs­samn­ing sín á milli.

… og menn­ing­ar­hús

Það er verið að skoða stofn­un áfanga­stofu fyr­ir höfuðborg­ar­svæðið sam­kvæmt sókn­aráætl­un SSH og nýrri ferðamála­stefnu Reykja­vík­ur. Góð reynsla er af því að bjóða upp á eitt „borg­ar­kort“ fyr­ir ferðamenn, þar sem innifal­inn er aðgang­ur að öll­um menn­ing­ar­hús­um Reykja­vík­ur, sem hægt væri að út­víkka fyr­ir allt höfuðborg­ar­svæðið. Slíkt sam­starf væri hægt að út­víkka enn frek­ar til að ná líka til íbúa höfuðborg­ar­svæðis­ins.

… og bóka­söfn

Bóka­söfn­in okk­ar eru að þró­ast í takt við nýja tíma og bjóða upp á mun meira en bara bæk­ur. Bóka­söfn­in eru að verða staðir til að koma saman, skapa, grúska, halda fundi og læra eitthvað nýtt. Það er ekk­ert sem seg­ir að þau sem nýta sér þess­ar þjón­ustu bóka­safn­anna, eins og sauma­klúbb­ar eða vina­hóp­ar, þurfi að búa í sama sveit­ar­fé­lagi.
Með því að opna þessi aðgangskort, þvert á sveit­ar­fé­lög­in á höfuðborg­ar­svæðinu, er hægt að ein­falda líf íbúa, auka val­frelsi þeirra og bæta upplifun.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. nóvember 2020