Stærsti pópúlistinn í lausu lofti

Þorsteinn Pálsson

Donald Trump tókst að sundra bandarísku þjóðinni og grafa undan trausti Bandaríkjanna í alþjóðasamfélaginu og alveg sérstaklega meðal rótgróinna bandamanna.

Þegar þetta er skrifað hanga úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum í lausu lofti. Og forsetinn hefur farið fram á að Hæstiréttur breyti kosningareglunum eftir á.

Byltingaárið 2016

Um mitt ár 2016 ákvað naumur meirihluti Breta að segja Bretland úr Evrópusambandinu. Þetta var mesti sigur popúlista í Evrópu fram að þeim tíma. Þeir bundu miklar vonir við að Evrópusambandið myndi leysast upp í kjölfarið.

Þetta var atburður af þeirri stærðargráðu að í raun var trúlegt að svo myndi fara. Í kjölfarið óx flokkum popúlista ásmegin í mörgum ríkjum Evrópu.

Donald Trump var svo um haustið þetta ár kosinn forseti Bandaríkjanna. Þar með réðu popúlistar öflugasta ríki veraldar.

Árið 2016 var því sannarlega pólitískt byltingaár.

Áhrifin á NATO og ESB

Eitt af markmiðum Trumps var að leysa upp það alþjóðlega stofnanakerfi, sem Bandaríkin höfðu forystu um að byggja upp í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar. Hann taldi að yfirburðir Bandaríkjanna nytu sín betur í tvíhliða samskiptum.

Í samræmi við þessa popúlísku hugmyndafræði hafa Bandaríkin reynt að veikja Evrópusambandið. Trump hefur nýtt Brexit til hins ýtrasta í því skyni.

Jafnframt hefur Atlantshafsbandalagið verið eins og höfuðlaus her undir forystu hans. Hugmyndafræði þess og popúlismans blandast jafn illa og olía og vatn.

Nokkuð hefur að vísu áunnist í því gamla baráttumáli að fá Evrópu til að leggja meir til varnarmála. En losnað hefur um innbyrðis samstöðu aðildarríkjanna og traustið gagnvart Bandaríkjunum hefur dvínað.

Fjórum árum eftir byltingu

Í reynd leiddi Brexit ekki til þeirrar upplausnar í Evrópu, sem margir hefðu vænst. Skoðanakannanir sýna þvert á móti ríkari stuðning almennings við Evrópuhugsjónina og fjölþjóðasamvinnu Evrópuríkja en nokkru sinni fyrr.

Brexit virðist hafa þjappað fólki saman um grundvallargildi. Í samræmi við það hefur hin mikla fylgissveifla popúlista í Evrópu smám saman hjaðnað.

Popúlisminn er ekki úr sögunni. En hann ógnar ekki stöðugleika og grunngildum lýðræðisins með sama þunga og fyrir fjórum árum.

Bandarísku kosningarnar hafa snúist um áframhaldandi popúlisma eða hefðbundin lýðræðisleg og siðfræðileg gildi. En hvernig sem fer verða Bandaríkin áfram sundruð ósamstæð þjóð.

Nýjar áskoranir

Jafnvel þótt Biden vinni falla hlutirnir samt sem áður ekki aftur í sama gamla farveginn.

Samskipti Bandaríkjanna og Evrópu munu batna við það. En margt er breytt. Bandaríkin verða ekki sama forysturíkið í heimsmálum eins og þau voru. Kína er smám saman að verða áhrifaríkara en þau. Einnig er ljóst að spennan milli Kína og Bandaríkjanna mun vaxa hvernig sem fer.

Brexit og popúlisminn sundruðu ekki Evrópu. En það breytir ekki hinu að aðilddarríki Evrópusambandsins glíma við margvísleg innri vandamál. Risavaxnar stuðningsaðgerðir sambandsins vegna veirukreppunnar sýna hins vegar að aðildarríkin eru fær um að takast á við slíkar áskoranir.

Evrópa stendur andspænis því mikla verkefni að axla smám saman meiri ábyrgð á eigin vörnum. Svo er ekki víst að það henti hagsmunum Evrópuríkja að fylgja Bandaríkjunum alfarið í viðskiptastríði við Kína.

Hagsmunir Íslands

Flest bendir til þess að fyrir Ísland skipti máli að styrkja tengslin enn meir við önnur Norðurlönd og Evrópusambandið í þessari breyttu heimsmynd, óháð úrslitum kosninganna.

Öflugt bakland í Evrópu verður til að mynda mikilvægara eftir því sem Kínverjar, Rússar og Bandaríkin auka þrýsting sinn á norðurslóðum.

Forsetaskipti myndu auðvelda góð og náin samskipti Íslands við Bandaríkin. En í ljósi þess að Bandaríkin eru ekki og verða ekki á sama stað og þau voru á tíma kaldastríðsins kalla íslenskir hagsmunir samhliða á að tengslin við Evrópusambandið verði styrkt.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 5. nóvember 2020