Þversögnin

Þversögn krónunnar er sú að það er auðvelt að ávaxta hana hratt og örugglega til skamms tíma. Hún er verðtryggð á háum vöxtum í efnahagskerfi sem sveiflast meira en önnur kerfi. Þannig að ef þú átt laust fé, og getur komið þér inn og út úr kerfinu á réttum tíma, er auðvelt að auðgast.

Aftur á móti er jafn slæmt að skulda í íslenskum krónum þar sem hún er dýr, sem sýnir sig í háum vöxtum. Sveiflurnar stökkbreyta skuldum reglulega og skuldarar hafa ekki færi á að stökkva inn og út úr kerfinu á skuldatímabili sem jafnan er til fjörutíu ára. Fæstir hafa ráðstöfunartekjur til að standa undir eðlilegum lánstíma sem segir okkur að venjulegt íslenskt launafólk hefur ekki efni á þessum gjaldmiðli.

Það er því eðlilegt að ríkasti hluti þjóðarinnar rói að því öllum árum að viðhalda þessu kerfi, því gróði hans er ævintýralegur. Allt fjármagnað af mér og þér, hinum íslenska launamanni sem þarf þak yfir höfuðið. Hins vegar er það mér hulin ráðgáta af hverju svo mörgum finnist þetta allt í lagi.

Viðreisn vill taka upp stóra alþjóðlega mynt. Það vil ég líka.

Höfundur er bæjarfulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði.

Greinin birtist fyrst á Vísi 16. nóvember 2020