Reykjavík tekur stór skref til viðreisnar

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Stór skref eru tekin til að standa vörð um fjölskyldur og fyrirtæki í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021. Við stöndum nú í einu dýpsta samdráttarskeiði hagsögunnar, atvinnuleysi fer vaxandi og veturinn verður erfiður fyrir marga. Í áætlun til næstu ára þarf að takast á við minni tekjur borgarinnar og vaxandi útgjöld.

Við stöndum frammi fyrir því að þurfa viðspyrnu vegna tekjufalls borgarinnar. Viðspyrnan verður ekki hafin með stórfelldum niðurskurði. Skattar í Reykjavík verða ekki hækkaðir, enda er það ekki stefna Viðreisnar. Við ætlum hins vegar að lækka álögur á atvinnuhúsnæði.

Skýr forgangsröðun fjárfestinga

Auk fjárhagsáætlunar lagði meirihlutinn í borgarstjórn nú í fyrsta sinn fram fjármálastefnu til 10 ára og sóknaráætlun borgarinnar, Græna planið. Þar kemur skýrt fram hvernig Reykjavík ætlar að takast á við vaxandi atvinnuleysi, stíga upp úr efnahagssamdrætti og styðja við borgarbúa á erfiðum tímum.

Við ætlum að sýna skynsemi í fjárfestingum og forgangsraða í þágu aðgerða sem munu spara borgarsjóði fé til langs tíma eða flýta nauðsynlegum fjárfestingum. Við ætlum ekki að spara í viðhaldi eins og gert var eftir hrunið. Við ætlum að reisa skóla, íþróttahús, ný hverfi og grænt umhverfi.

Græna planið er langtímaáætlun um efnahagslega endurreisn borgarinnar og þau stóru grænu skref sem við ætlum að taka til sóknar með því að beina fjárfestingu í verkefni sem vinna gegn loftslagsáhrifum. Þessar meginlínur eru skynsamleg fjármálastjórn á erfiðum tímum. Efnahagslífið þarf innspýtingu, og borgin mun ekki láta sitt eftir liggja.

Við setjum okkur fjármálaramma

Alþingi hefur um stund lagt til hliðar reglur um fjármálastjórn sveitarfélaga, bæði um skuldaviðmið og jafnvægisviðmið svo að sveitarfélög eigi auðveldara með að bregðast við efnahagsástandinu með auknum lántökum.

Við þessar aðstæður gæti komið upp freistnivandi um að ganga lengra í skuldsetningu en þörf er á og sleppa tökunum á fjármálastjórn málaflokka sem þurfa að glíma við einstakar aðstæður. Þetta ætlum við ekki að gera og höfum því sjálf lagt fram okkar ramma til að halda uppi merkjum agaðrar fjármálastjórnunar á erfiðum tímum, með viðmiðum um skuldir samstæðu og A-hluta.

Við hagræðum

Við gerum enn hagræðingarkröfu á svið borgarinnar. Flestir málaflokkar þurfa að hagræða í rekstri um eitt prósent en stærstu málaflokkarnir tveir, það er að segja velferð og skólamál, sem þurfa nú að takast á við stærri og erfiðari verkefni vegna samdráttarins, munu hagræða um hálft prósent. Þessi hagræðingarkrafa verður endurskoðuð árlega í samræmi við efnahagsástand.

Það verður fullt gagnsæi í eftirfylgni með fjármálastefnunni, því staðan verður metin með ársfjóðungslegum áhættuskýrslum fjármála og áhættusviðs til borgarráðs. Þessi meirihluti hefur lagt áherslu á bætta áhættustýringu og við munum halda áfram að styðja við þá þróun.

Lægsta skuldahlutfallið á höfuðborgarsvæðinu

Þrátt fyrir stór skref og fjárfestingar upp á 30 milljarða á næsta ári verður borgarsjóður samt með lægsta skuldahlutfall A-hluta hér á höfuðborgarsvæðinu á næsta ári. Samkvæmt framlögðum fjárhagsáætlunum annarra sveitarfélaga verður Garðabær með um 122%, Kópavogur 127%, Mosfellsbær 141% og Hafnarfjörður 155%.

Auðvitað væri betra að þurfa ekki að auka skuldir en það væri efnahagslega óábyrgt af stærsta sveitarfélagi landsins og höfuðborg að sitja hjá í uppbyggingu eftir það efnahagsáfall sem Ísland hefur orðið fyrir. Við ætlum ekki að endurtaka söfnun í fjárfestingaskuld eins og gerðist eftir 2008. Þess í stað fjárfestum við í hagræðingu til framtíðar, með stafrænni umbyltingu á þjónustu.

Í Reykjavík er meirihluti sem þorir

Reykjavík, líkt og önnur sveitarfélög, er þess megnug að geta veitt góða grunnþjónustu þrátt fyrir að tekjur borgarinnar séu tímabundið lægri. En hér skiptir líka máli hver stjórnar.

Að í Reykjavík sé nú meirihluti sem þorir að fara í stórauknar framkvæmdir og fjárfesta til framtíðar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. desember 2020