15 jan Hver hefur not fyrir gamalt fólk?
Frænka mín varð sjötug um daginn. Við ræddum um tíðarandann og hún nefndi að nú gætu allir valið sér kyn; karl, kona eða eitthvað annað. „Það er sannarlega gott“, sagði hún, „að samfélagið sé ekki að skipta sér af kynferði þegnanna.“ Bætti svo við: „Svo má fólk núna skipta um nafn, ef því sýnist svo.“
Svo þagði hún í drykklanga stund og sagði stundarhátt: „Ég myndi helst vilja skipta um kennitölu.“
Við brostum bæði, en öllu gamni fylgir alvara. Ég að það trufli hana í raun ekkert að vera orðin sjötug. Hún er í fullu fjöri og nýtur þess að vera amma, sem er einn af kostunum sem fylgir því oft að eldast. Ég veit ekki til þess að neinn hafi séð að afmælisdagurinn hafi dregið úr starfsgleði hennar eða kröftum.
Samfélagið hefur samt ákveðið að nú hafi það ekki not fyrir störf þessarar eldkláru og kraftmiklu konu. Hún var kvödd með pomp og prakt og þar með er því lokið.
Hvers konar vitleysa er þetta? Vinnandi fólk með verðmæta þekkingu er auður sem við sem þjóðfélag eigum ekki að henda frá okkur. Aldursfordómar eru ekki betri en aðrir fordómar.
Fyrir skömmu birtist viðtal við Sigrún Eddu Björnsdóttur leikkonu, þar sem hún varpar fram spurningunni sem er uppspretta fyrirsagnarinnar: „Hver hefur not fyrir sextuga konu?“
Í leikhúsinu eiga karlar auðveldara með að fá hlutverk langt fram eftir aldri en konur. Sigrún sem er sextug er elsta fastráðna leikkonan við Borgarleikhúsið.
Sigrún bendir á að líf kvenna verði þó ekki minna spennandi eftir sextugt, það sé mikill misskilningur. „Kona á mínum aldri hefur gríðarlega reynslu og nægan tíma til að sinna vinnu eftir að börnin eru flogin úr hreiðrinu.“ Það sé þó því miður ekki mikil eftirspurn eftir konum á besta aldri.
Reynsla Sigrúnar á ekki bara við um konur. Fjölmargir vinir og kunningjar hafa sagt mér hve erfitt þeim reynist að fá vinnu eftir fimmtugt, hvað þá þegar þeir eru orðnir eldri. Fimmtugir nú á dögum eru í blóma lífsins, en reynsla, þekking og húsbóndahollusta er víða lítils metin.
Upp úr aldamótum sat ég stjórn stórfyrirtækis sem var nýkomið í eigu banka. Bankastjórinn lagði til að engir starfsmenn skyldu vinna lengur en til 65 ára og enginn vera í stjórnunarstöðu sem væri orðinn sextugur. Ég var sá eini í stjórninni sem greiddi atkvæði gegn tillögunni og voru þó tveir stjórnarmenn um eða yfir sjötugt. Enginn annar sá þversögnina.
Fyrir hvern árgang sem hverfur af vinnumarkaði tapar þjóðfélagið um 30 milljörðum króna. Heilum Íslandsbanka á tæplega fimm árum.
Eitt af aðalstefnumálum Viðreisnar er: Enginn verði þvingaður af vinnumarkaði eingöngu vegna aldurs.
Því segi ég: Neyðum engan sem vill og getur unnið lengur til þess að hætta störfum. Nú þurfum við á öllum verðmætum að halda sem aldrei fyrr.
Aldur er auðlind.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. janúar 2021.