Móðir, systir, dóttir, amma og vinkona

Í byrj­un árs voru breyt­ing­ar gerðar á fram­kvæmd skim­ana fyr­ir krabba­mein­um í kjölfar ákvörðunar heil­brigðisráðherra þess efn­is. Frétt­irn­ar komu mörg­um á óvart. Land­spít­ala hef­ur nú verið falin fram­kvæmd skim­ana fyr­ir krabba­mein­um í brjóst­um í sam­vinnu við Sjúkra­húsið á Ak­ur­eyri og heilsu­gæsl­unni hef­ur verið fal­in fram­kvæmd skim­ana fyr­ir krabba­meini í leg­hálsi. Sam­hliða því að þetta sam­fé­lags­lega mik­il­væga verk­efni flyst nú al­farið yfir til hins op­in­bera voru gerðar breyt­ing­ar á framkvæmdinni. Ald­ur­sviðmiðum var breytt fyr­ir skimun brjóstakrabba­meins og tíðni skim­ana fyr­ir leg­hálskrabba­meini minnkuð. Skimun fyr­ir krabba­meini í brjóst­um og leg­hálsi er mik­il­væg for­vörn sem býðst ein­kenna­laus­um kon­um og ég held að það sé óhætt að segja að kon­ur og aðstand­end­ur þeirra séu þakk­lát fyr­ir hana.

Al­geng­asta krabba­mein kvenna

Viðbrögðin bera með sér að frétt­irn­ar veki kvíða og ugg. Eðli­lega, vil ég leyfa mér að segja, enda eru mikl­ir hags­mun­ir í húfi og rök­semd­irn­ar að baki hafa ekki verið kynnt­ar al­menn­ingi nema að tak­mörkuðu leyti. Heil­brigðis­starfs­fólk hef­ur á síðustu dög­um líka lýst yfir efa­semd­um. Ég viður­kenni að mér fund­ust þess­ar frétt­ir óþægilegar. Brjóstakrabba­mein er al­geng­asta krabba­mein sem kon­ur grein­ast með. Þær töl­ur þekkj­um við öll. Að jafnaði grein­ast rúm­lega 200 kon­ur á ári. Öll gleðjumst við og get­um verið stolt af því að 90% kvenna eru á lífi 5 árum eft­ir grein­ingu. Hina hliðina þekkj­um við líka því miður öll, að marg­ar kon­ur hafa lát­ist vegna brjóstakrabba­meins. Mæður, syst­ur og dæt­ur, vin­kon­ur, ömm­ur, vinnu­fé­lag­ar og grann­ar. Kon­ur sem greinst hafa með brjóstakrabba­mein eru allt um kring. Þess vegna stend­ur okk­ur ekki held­ur á sama þegar breyt­ing­ar eru gerðar á aðgengi að skimun­um og fyr­ir­komu­lagi þeirra. Málið stend­ur mörg­um svo nærri. Það er þess vegna sem svo miklu skipt­ir að for­send­ur og rök­semd­ir fylgi og að sam­tal fái að eiga sér stað um hvort við vilj­um yf­ir­leitt fara í breyt­ing­ar á borð við þær að hækka aldursviðmið brjósta­skimun­ar um heil 10 ár. Og ég viður­kenni að ég er í hópi þeirra sem eru smeyk við þá breyt­ingu.

Tug­ir yngri kvenna á hverju ári

Hingað til hef­ur kon­um á aldr­in­um 40-69 ára verið boðið í skimun fyr­ir krabba­meini í brjóst­um en nú verður kon­um á aldr­in­um 50-74 ára boðið í skimun. Kon­um stend­ur því til boða að fara í þessa skimun leng­ur en verið hef­ur en skimun hefst hins veg­ar 10 árum seinna. Þá verður skimun fyr­ir leg­hálskrabba­meini á 5 ára fresti í stað 3 ára, án þess að al­menn­ing­ur heyri rök­in að baki. Mér sýn­ist sem sú breyt­ing að hefja brjósta­skimun ekki fyrr en við 50 ára ald­ur sé ekki í sam­ræmi við evr­ópsk til­mæli og fram hef­ur komið að fagráð um brjósta­skimun hafi mælst til þess að aldursviðmiðið yrði 45 ár. Það eitt vek­ur spurn­ing­ar. Hingað til hafa stjórn­völd talið ástæðu til þess að miða við 40 ár og í ljósi þeirra hags­muna sem eru í húfi þarf þetta sam­tal að fá að eiga sér stað. Á vef Krafts, stuðnings­fé­lags fyr­ir ungt fólk með krabba­mein og aðstand­end­ur, seg­ir að á ár­un­um 2015-2019 hafi að meðaltali 31 kona á aldr­in­um 40-49 ára greinst ár­lega með brjóstakrabbamein. Þar til viðbót­ar eru þær kon­ur sem grein­ast með brjóstakrabba­mein und­ir 40 ára aldri. Að jafnaði grein­ast því ein­hverj­ir tug­ir ungra kvenna með brjóstakrabba­mein á ári hverju. Það er því ekki al­veg svo að brjóstakrabba­mein hjá kon­um und­ir 50 ára aldri sé aðferðafræðileg­ur út­lagi eða veru­leiki sem við könn­umst ekki við.

For­send­ur og upp­lýs­ing­ar skort­ir

Eft­ir stend­ur hversu mik­il­vægt það er fyr­ir ör­yggi kvenna og já­kvæða upp­lif­un af eftirliti að skimun hefj­ist fyrr frek­ar en seinna. Strax af þess­ari ástæðu er það grundvallarskylda stjórn­valda að útskýra for­send­ur að baki þess­um breyt­ing­um en veru­lega hefur skort á upp­lýs­ing­ar um for­send­ur og rök­semd­ir, ann­ars veg­ar hvað varðar breytingar um ald­ur­sviðmið og tíðni skim­ana og hins vegar um flutn­ing þessa verk­efn­is yfir til heilsu­gæsl­unn­ar og Land­spít­ala. Eðli­leg spurn­ing í þessu sam­bandi er til dæmis hvort heilsu­gæsl­an hafi bol­magn til þess að bæta þess­um verk­efn­um við sig? Heilsu­gæsl­an er þegar mjög verk­efn­um hlaðin. Hvað verður um þá fagþekk­ingu sem byggst hef­ur upp? Og hvers vegna er þessi leið betri en sú að Sjúkra­trygg­ing­ar semji við fagaðila sem geta veitt viður­kennda þjón­ustu? Hvers vegna er betra að bæta þess­um verk­efn­um á heilsu­gæsl­una og auka álag á Land­spít­al­ann?

Mark­miðið hlýt­ur að vera að eft­ir­lit sé eins og best verður á kosið og að fólk upp­lifi að svo sé. For­send­ur og rök­semd­ir þarf að kynna ræki­lega þegar svona veiga­mikl­ar breyt­ing­ar eru gerðar. Sam­tal við al­menn­ing verður líka að fá að eiga sér stað og á að snú­ast um hvernig við get­um tryggt skimun, eft­ir­lit og meðferð þannig að við náum besta mögu­lega ár­angri. Þetta mál stend­ur okk­ur öll­um nærri, snert­ir víða sára taug og get­ur ekki átt sér stað með þess­um hætti að breyt­ing sé kynnt án nokk­urs samtals.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. janúar 2021