Munn­legt of­beldi og verk­legt

Mig setur oft hljóðan þegar ég heyri fólk tala um Dag B. Eggertsson. Þá meina ég hluti sem fólk segir með munninum, fullorðið fólk, jafnvel bláedrú. Yfirleitt er ég ekki hljóður lengi, heldur tek upp hanskann fyrir Dag. Ég hef unnið með honum og veit hvaða mann hann hefur að geyma. Ég er ekki sammála honum um alla hluti, en hann er bara góður gaur, duglegur, skemmtilegur og hugmyndaríkur.

Sama má segja um til dæmis Bjarna Benediktsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Sigmund Davíð, Þorgerði Katrínu og fjölda annarra sem hafa verið áberandi í þjóðmálunum. Allt fólk sem ég hef umgengist. Allt öndvegisfólk með sterkar skoðanir og framkvæmdagleði yfir meðallagi. Þegar kemur að ummælum á samfélagsmiðlum verða palladómar um áberandi fólk enn verri en í samtölum kjötheima. Iðulega sóðalegt stöff, þrungið ofbeldi.

Sjálfur hef ég ekki alltaf verið barnanna bestur. Í viðtali við Helgarpóstinn vorið 1996 sagði ég, spurður hvort ég ætlaði að kjósa tiltekinn stjórnmálamann, „Nei, þann mann myndi ég ekki kjósa í neitt, ekki einu sinni formann húsfélags“. Eflaust ekki það versta sem ég hef látið út úr mér um dagana.

En árunum fylgir lærdómur. Maður vinnur sigra og ósigra, öðlast auðmýkt og lærir að setja sig í spor annarra. Öðlast samlíðan með öðrum og skilning á því hversu heimskulegt það er að dæma fólk eftir skoðunum þess. Farsælasta leiðin til að umgangast fólk er af virðingu.

Ofbeldisspírallinn

Sem ákafur fréttalesandi og nokkuð virkur á samfélagsmiðlum hef ég haft á tilfinningunni að orðin sem notuð eru gagnvart fólki á öndverðum meiði hafi orðið ljótari með árunum. Á köflum smitast þetta inn í pólitísk átök og kjarabaráttu. Kjósendur verða orðljótari og kjörnir fulltrúar fylgja sínu fólki í sinni orðanotkun. Fara í manneskjuna en ekki málefnið.

Harkaleg orðræða elur á ofbeldismenningu. Ofbeldi í orði hefur tilhneigingu til að verða ofbeldi á borði. Við sjáum á átökum sem hafa brotist út í öðrum rótgrónum lýðræðisríkjum hvernig það gerist, sérstaklega þegar ráðandi öfl fordæma ekki ofbeldið á meðan það er enn á spjallþráðum í netheimum.

Nú erum við komin á þann stað að skotið hefur verið með riffli á einkabifreið borgarstjóra. Einhver hefur lesið orðræðuna þannig að í lagi sé að ógna borgarstjóra og fjölskyldu hans með skotvopni. Einhver hefur þar fyrir utan skotið á skrifstofur þriggja stjórnmálaflokka, mögulega sami aðili. Í kjölfarið þótti einum kjörnum fulltrúa við hæfi að segja „byltingin er hafin“ í ummælum á samfélagsmiðli, um leið og sá sami réttlætti skotárásina á bifreið Dags.

Orðfæri Viðreisnar

Árið 2016 sagði ég mig úr stjórnmálaflokki og gekk í nýstofnaða Viðreisn. Það fyrsta sem ég sá er ég gekk inn á flokkskrifstofu Viðreisnar er mér minnisstætt – á korktöflu hékk A4 blað sem á stóð Orðfæri Viðreisnar“. Í skjalinu voru nokkrar einfaldar reglur;

  • Við ræðum um málefni en ráðumst ekki á fólk.
  • Við notum rök og staðreyndir í málflutningi okkar og styðjumst ekki við gróusögur.
  • Við notum aldrei hatursáróður eða tökum þátt í hatursumræðu.
  • Við beitum aldrei dómhörku í málflutningi okkar.
  • Við tölum af virðingu um fólk og virðum öll trúarbrögð, skoðanir, kynhneigð, störf, stjórnmálaskoðanir, tungumál, uppruna fólks og áhugamál.
  • Kynbundin og kynferðisleg áreitni, kynbundið ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi verður ekki liðið í starfi Viðreisnar.
  • Við leggjum fram vel rökstuddar málefnaskrár og tillögur.
  • Við tölum aldrei niður til viðmælenda okkar eða lítillækkum þá.
  • Við munum að mistök eru til að læra af þeim.
  • Við eignum okkur ekki sigra annarra. Við látum okkar verk tala og látum vita af þeim.

Að lestrinum loknum grunaði mig að menningin í Viðreisn kynni að vera ólík því sem ég hafði áður kynnst. Tíminn sem síðan er liðinn hefur staðfest það.

Nú veit ég ekki hvort ég eða aðrir kjörnir fulltrúar Viðreisnar höfum fylgt þessum reglum í þaula, en við reynum að gera það. Enda er það skynsamlegt og praktískt. Eitt af því sem maður lærir af lífinu er að maður veit aldrei hver verður næsti samferðarmaður.

Sem dæmi um það má nefna er stjórnmálamaðurinn sem ég hugðist aldrei kjósa í neitt. Fimm árum eftir að ummæli mín féllu var dóttir hans orðin kærastan mín, nú eiginkona. Við eigum fimm börn. Ég kaus þennan mann að lokum til að vera afi barnanna minna.

Greinin birtist fyrst á Fréttablaðið.is 29. janúar 2021