11 feb 53.000 atkvæði
Misvægi atkvæða í alþingiskosningum á Íslandi hefur verið deiluefni í áratugi. Lengi hefur verið reynt að útskýra þetta augljósa mannréttindabrot en nýlega birti dr. Haukur Arnþórsson áhugaverða grein um þetta mál sem skýrir misvægið á mannamáli sem allir skilja.
Þar segir Haukur meðal annars um ójafnan atkvæðisrétt kjósenda að „miða megi við að þrjú atkvæði þurfi frá höfuðborgarsvæðinu á móti tveimur frá landsbyggðinni. Það jafngildir því að 53.000 kosningabærra manna á höfuðborgarsvæðinu (Reykjavík og Suðvesturhornið) hafi ekki kosningarétt“.
Það samsvarar því í raun að öll greidd atkvæði Hafnfirðinga, Kópavogsbúa og Garðbæinga yrðu ekki talin í kosningunum í haust, þeim yrði einfaldlega stungið undir stól!
Þorkell Helgason ræðir málið í annarri grein og segir hann að „ójafn atkvæðisréttur kjósenda er á skjön við almennt jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar“. Og síðar segir hann að „misvægi atkvæða fær ekki staðist til lengdar. Stjórnlagaráð lagði vitaskuld til að allir hefðu sama atkvæðisrétt og það sjónarmið var staðfest af tveimur þriðju hluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Ísland hefur fengið ákúrur frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu vegna þessa ójafna kosningaréttar. Spyrja má hvort Mannréttindadómstóll Evrópu kunni að taka í taumana, eins og gerst hefur í öðrum stórmálum okkar.“
En það er von. Viðreisn hefur einn flokka lagt fram á Alþingi frumvarp um að jafna atkvæðavægi að fullu. Það er full ástæða til að hvetja þingmenn flokksins til dáða í þessu máli. Það væri fróðlegt fyrir þig, kæri lesandi á Suðvesturhorninu, að vita hvort þinn flokkur styðji ekki örugglega þetta frumvarp. Kannaðu málið.