18 feb Að bremsa tíðarandann
S>tjórnarsamstarf getur óhjákvæmilega veitt minnihluta völd til að stíga á bremsuna í málum, sem meirihluti er fyrir. Á lokaþingi þessa kjörtímabils er stigið oftar og fastar á þessa bremsu en áður.
Svona virkar bremsan
Varnarsamningurinn er eitt dæmi um þetta. Fyrir sjötíu árum var það í samræmi við tíðarandann að ráðherra vélaði einn um framkvæmdir á grundvelli samningsins og viðbætur við hann. Nútíminn kallar á opna umræðu og samþykki Alþingis.
Þingmenn VG endurflytja nú frumvarp, sem gerir ráð fyrir því að Alþingi þurfi að samþykkja allar bókanir og viðbætur við varnarsamninginn og allar varnarframkvæmdir. Algjörlega óháð afstöðu til varnarsamstarfsins endurspeglar breyting af þessu tagi einfaldlega nýjan tíðaranda, nýjar kröfur til lýðræðisins.
Vegna stjórnarsamstarfsins fá alþingismenn þó ekki að greiða atkvæði um frumvarpið. Þar af leiðandi eru tvær pólitískar hliðar á flutningi þess. Önnur sýnir vilja til breytinga. Hin dregur skýrt fram hvernig bremsan virkar í stjórnarsamstarfinu.
Flest bendir til að meirihluti sé fyrir frumvarpinu, ef bremsan í stjórnarsamstarfinu hindraði ekki atkvæðagreiðslu um það.
Þjóðin fær ekki að ráða
Bremsan gegn tíðarandanum endurspeglast þó einna best í stjórnarskrármálinu.
Fjölþjóðasamvinna er eitt stærsta viðfangsefni allra þjóða í nútímanum. Stjórnarskráin þarf að heimila slíkt samstarf og kveða á um leikreglurnar. Þetta hafa allar grannþjóðir okkar leyst fyrir löngu.
Í byrjun lofaði forsætisráðherra að í fyrsta áfanga heildarendurskoðunar á stjórnarskrá yrði tekið á þessu brýna verkefni.
Ástæðulaust er að efast um vilja formanns VG í þessu efni. Hún flutti sjálf fyrir nokkrum árum tillögu um að þjóðin fengi að taka ákvörðun um aðildarviðræður að Evrópusambandinu óháð hennar eigin afstöðu.
Í umfangsmiklu og vönduðu ferli almenningssamráðs kom skýrt fram í rökræðukönnun að tveir þriðju hlutar þjóðarinnar telja að gera þurfi breytingar á stjórnarskrá til að stjórnvöld geti gengist undir skuldbindingar, sem alþjóðasamstarf kann að krefjast. Það er tíðarandinn.
Formaður VG varð að svíkja þetta loforð með tilliti til stjórnarsamstarfsins. Fulltrúar þeirra í stjórnarsamstarfinu, sem telja hættulegt að laga leikreglurnar að tíðarandanum, stigu á bremsuna.
Þeir fá því ráðið að stjórnarskráin kemur í veg fyrir að þjóðin geti sjálf tekið slíkar ákvarðanir. Niðurstaða í almenningssamráði víkur fyrir bremsu minnihlutans.
Mismunun þrátt fyrir meirihlutavilja
Almenningssamráðið leiddi einnig í ljós að meira en tveir þriðju hlutar kjósenda telja að jafnt vægi atkvæða væri mikilvægasta markmið breytinga á kjördæmaskipan. Það er tíðarandinn.
Stjórnarsamstarfið veldur því hins vegar að þessu kalli tíðarandans um afnám mismununar má ekki svara.
Úrslit síðustu kosninga eru nýjasta vísbendingin um tíðarandann varðandi nýtingu náttúruauðlinda af því að um það efni mátti ekki spyrja í almenningssamráðinu.
Nærri tveir þriðju hlutar kjósenda greiddu þeim flokkum atkvæði, sem vildu að réttur til nýtingar auðlinda í þjóðareign væri tímabundinn. Það hefur á þessari öld verið almenn regla á öllum sviðum auðlindanýtingar, nema varðandi nýtingu fiskistofna.
Stjórnarsamstarfið hefur aftur á móti leitt til þess að þetta kall samtímans hefur ekki náð inn í þá einu almennu löggjöf, sem enn fullnægir ekki meginreglunni um tímabundin afnot.
Og nú skrifast það einnig á reikning stjórnarsamstarfsins að ekki er unnt að koma í veg fyrir mismunun á þessu sviði með skýru og virku orðalagi í nýju auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Það hvín í bremsu minnihlutans, en hún virkar.
Komið nóg
Hér verður ekki gert lítið úr mikilvægi stöðugleika og festu í þjóðfélaginu. En það er misnotkun á þessum hugtökum þegar þau eru notuð til þess að grafa skotgrafir kyrrstöðu, sem kemur í veg fyrir að samfélagið þróist eðlilega í takt við framrás tímans.
Það voru vissulega ekki margir aðrir kostir um stjórnarmyndun síðast. En það er samt komið nóg af þessu varnarstríði gegn tíðarandanum.